Nú eru börnin okkar farin að taka málin í sínar hendur.

Hvet alla til að kynna sér þetta flotta verkefni um ákominn heilaskaða!

"María Rós heiti ég og er dóttir Guðrúnar formanns Hugarfars. Mamma mín lenti í slysi 2012 og fékk heilaskaða, þess vegna valdi ég að fjalla um áverkatengdan heilaskaða í lokaverkefninu mínu í 10. bekk. Vinkona mín Þórey Gréta var með í þessu lokaverkefni og hafði áhuga vegna þess að hún vildi fræðast meira um áverkatengdan heilaskaða. Við gerðum glærukynningu, bækling, heimasíðu, myndir, settum upp bás til kynningar á efninu og héldum kynningu fyrir kennara, dómara, foreldra, nemendur og aðra. Hér að neðan er linkur inn á heimasíðu vegna lokaverkefnis."

Ráðstefna um ákominn heilaskaða föstudaginn 18. mars á Grand Hótel

Hugarfar stendur fyrir ráðstefnu um ákominn heilaskaða þann 18. mars næstkomandi á Grand Hótel frá kl. 9.00-11.45. Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar er snjóbrettakappinn Kevin Pearce, sem rekur í dag góðgerðasamtökin Love Your Brain. Húsið opnar kl. 8.30 og dagskrá hefst kl. 9.00.

Hér er um að ræða frábæran vettvang til að fræðast um stöðu fólks með ákominn heilaskaða, hvaða afleiðingar heilaáverkar geta haft í för með sér og hvað við getum gert betur hér á landi í endurhæfingu og fræðslu.

Það er mikil þörf á aukinni fræðslu um ákominn heilaskaða, bæði hjá stjórnmálafólki, fagfólki og almenningi. Heilaskaði hefur stundum verið nefndur „hinn þögli faraldur” þar sem afleiðingar hans sjást iðulega ekki utan á fólki. Mikill skortur er á upplýsingum og faglegri ráðgjöf fyrir fólk sem hlýtur ákominn heilaskaða og aðstandendur þeirra. Einstaklingar sem fá ekki viðeigandi meðferð, skilning og stuðning eru í aukinni hættu hvað varðar geðræn vandamál, ýmis konar áhættuhegðun og á að komast í kast við lögin.

Með ráðstefnunni viljum við vekja athygli á því að á Íslandi er skortur á úrræðum sem ættu að taka við eftir að bráðameðferð líkur á Reykjalundi eða Grensásdeild. Einnig viljum við sýna fram á mikilvægi þess að bjóða upp á úrræði sem hjálpa fólki að fóta sig í lífinu á ný.

 

Fyrirlesarar

Kevin Pearce er heimsfrægur fyrrum atvinnumaður á snjóbrettum og var á sínum tíma talinn helsti keppinautur Shaun White, frægasta snjóbrettakappa heims síðustu ár. Kevin stefndi á vetrarólympíuleikana árið 2010 en við æfingu í lok árs 2009 datt hann illa og hlaut við það heilaskaða, aðeins 22 ára gamall. Eftir slysið tók við langt og strangt endurhæfingarferli hjá Kevin sem segir að á hverjum degi minni líkami hans hann á slysið og afleiðingar þess. Hann hefur ekki getað stundað snjóbrettið eins og áður en hefur þess í stað einbeitt sér að því undanfarin ár að vinna að eigin bata og láta gott af sér leiða í gegnum samtökin sín Love Your Brain og hjálpa fólki að lifa með heilaskaða.

Dís Gylfadóttir er nýráðin verkefnastjóri hjá Hugarfari en sat fram að því í stjórn félagsins frá árinu 2009. Hún hlaut dreifðan heilaskaða eftir bílslys í lok árs 2002, þá 19 ára gömul. Dís hefur unnið hörðum höndum í gegnum árin að því að auka þekkingu á afleiðingum heilaskaða og bæta endurhæfingarúrræði hérlendis. Dís er guðfræðingur að mennt.

Smári Pálsson er sérfræðingur í klínískri taugasálfræði frá Háskólanum í Kaupmannahöfn og hefur starfað hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði frá 2012. Áður starfaði hann sem yfirsálfræðingur á tauga- og hæfingarsviði Reykjalundar og var þar teymisstjóri heilaskaðateymis. Þar áður starfaði hann sem taugasálfræðingur á Öldrunarsviði Landspítala háskólasjúkrahúss á Landakoti. Smári hefur verið í Fagráði um heilaskaða frá stofnun og nú sem varamaður tengiliðar við Hugarfar.

Guðrún Karlsdóttir er yfirlæknir tauga- og hæfingarteymis á Reykjalundi og hefur starfað þar í tæp 4 ár. Þar áður starfaði hún sem endurhæfingarlæknir í 10 ár á Grensásdeild.

Fundarstjóri er Hafrún Kristjánsdóttir, sálfræðingur og sviðsstjóri Íþróttafræðasviðs HR

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Aðalfundar Hugarfars 18. janúar 2016

Á Aðalfundi Hugarfars 18. janúar 2016 voru Stefán John, Kristinn Magnússon og Þóranna Pálsdóttir kjörin í þrjú embætti stjórnar Hugarfars. Stefán var kosinn í embætti ritara/varaformanns, Þóranna kosin í embætti gjaldkera og Kristinn kosinn í embætti meðstjórnanda. Áfram sitja Guðrún Harpa í embætti formanns og Ólafía Mjöll í embætti meðstjórnanda. Viljum við óska þeim til hamingju með kjörið.
Viljum við þakka fyrrum stjórnarmönnum fyrir sitt framlag og störf hjá félaginu.

Klara Bragadóttir sem áður var í stjórn er nú tengiliður Fagráðs en ekki stjórnarmaður. Smári Pálsson taugasálfræðingur kemur inn sem varamaður hennar.

Dís Gylfadóttir hefur verið ráðin sem verkefnastjóri hjá Hugarfari. Starf hennar felst í því að sjá um innra starf Hugarfars. Dís Gylfadóttir fer því úr stjórn Hugarfars til að sinna því starfi. Þökkum við henni fyrir langa viðveru og flotta vinnu sem varamaður í stjórn Hugarfars.

Samþykktu fundarmenn Dís Gylfadóttur sem fundarstjóra.

Samþykktu fundarmenn bæði skýrslu stjórnar og ársreikning.

Samþykktu fundarmenn hækkun félagsgjalda í 5.000 kr. pr. ár.

Tillögur að lagabreytingu á  4.gr laga Hugarfars voru samþykktar að hluta með breytingartillögu um að fjöldi einstaklinga í stjórn séu að hámarki 5. Var sú breytingartillaga samþykkt. Hljóðar því 4.gr laga Hugarfars svo:

4. gr. Stjórn félagsins og verkaskipting

Stjórn félagsins skal skipuð að lágmarki 3 einstaklingum og að hámarki 5. Meðal stjórnarmanna skulu þrjú hlutverk skilgreind:

  1. formaður stjórnar
  2. varaformaður og ritari
  3. gjaldkeri

Aðrir stjórnarmenn gegna hlutverki meðstjórnenda ellegar hafa skilgreind hlutverk. 

Fagráð um heilaskaða skipar einn tengilið við stjórn og annan sem varamann.

Stjórnin er skipuð til tveggja ára í senn. Formaður og einn stjórnarmaður eru kosnir annað hvert ár en hitt árið er einn stjórnarmaður kosinn.

Stjórnin skiptir með sér verkum þannig:

Formaður er málsvari félagsins, boðar til stjórnarfunda og sinnir málefnum félagsins á milli funda.

Ritari/varaformaður ritar fundargerðir, bréf og varðveitir lög félagsins, auk formannsstarfa við forföll formanns.

Gjaldkeri sér um fjármál félagsins og heldur utan um félagatal.  

Tengiliður Fagráðs um heilaskaða tryggir samráð á milli stjórnar og Fagráðs um heilaskaða.

Reikningar skulu skoðaðir af löggiltum endurskoðanda.

Borin var fram tillaga um að stjórn Hugarfars hefði fjárheimildir til að gefa formanni Hugarfars leyfi á að þiggja laun fyrir ákveðin verkefni sem falla utan hefðbundinna stjórnarstarfa. Var sú tillaga samþykkt með fyrirvara um að ný stjórn Hugarfars móti regluramma utan um þá heimild.

Tillaga af lagabreytingu Hugarfars.

Breytingartillaga

4. gr. Stjórn félagsins og verkaskipting.

Stjórn félagsins skal skipuð að lágmarki 3 einstaklingum og að hámarki 6. Meðal stjórnarmanna skulu þrjú hlutverk skilgreind:

  1. Formaður stjórnar
  2. Varaformaður og ritari
  3. Gjaldkeri

Aðrir stjórnarmenn gegna hlutverki meðstjórnenda ellegar hafa skilgreind hlutverk. 

Fagráð um heilaskaða skipar einn tengilið við stjórn og annan sem varamann.

Stjórnin er skipuð til tveggja ára í senn. Formaður og einn stjórnarmaður eru kosnir annað hvert ár en hitt árið er einn stjórnarmaður kosinn.

Stjórnin skiptir með sér verkum þannig:

Formaður er málsvari félagsins, boðar til stjórnarfunda og sinnir málefnum félagsins á milli funda.

Ritari/varaformaður ritar fundargerðir, bréf og varðveitir lög félagsins, auk formannsstarfa við forföll formanns.

Gjaldkeri sér um fjármál félagsins og heldur utan um félagatal.  

Tengiliður Fagráðs um heilaskaða tryggir samráð á milli stjórnar og Fagráðs um heilaskaða.

Reikningar skulu skoðaðir af löggiltum endurskoðanda.

Aðalfundur Hugarfars 18. janúar 2016

Aðalfundur Hugarfars 2016 verður haldinn í  húsnæði ÖBÍ að Sigtúni 42 ,105 Reykjavík. Fundurinn verður í fundarherbergi á 1. hæð mánudaginn 18. janúar 2016 kl. 19.

Dagskrá aðalfundar:
1.    Fundur settur
2.    Kosning fundarstjóra
3.    Skýrsla stjórnar
4.    Reikningar félagsins
5.    Lagabreytingar
6.    Kosningar í stjórn
7.    Félagsgjöld
8.    Önnur mál

Samkvæmt lögum félagsins skal kosið í þrjú embætti stjórnar:
Embætti gjaldkera, ritara og annars varamanns.
Tekið verður við framboðum til stjórnar Hugarfars á hugarfar@hugarfar.is.

Vonum að sem flestir gefi sér tíma og mæti á aðalfundinn.

Stjórn Hugarfars

Börn og höfuðáverkar

Fundur í fyrrakvöld um börn og höfuðáverka var ákaflega vel heppnaður.  Um 60 manns mættu á fundinn og var meirihluti gesta heilbrigðisstarfsfólk.

Á fundinum fluttu Ingvar H. Ólafsson heila- og taugaskurðlæknir og Ólafur Thorarensen sérfræðingur í barnalækningum og taugasjúkdómum barna erindi um höfuðáverka hjá börnum.

Stjórn Hugarfars þakkar þeim Ingvari og Ólafi kærlega fyrir þeirra framlag til félagsins með því að undirbúa og halda þessa fyrirlestra.

 

Frá fundinum 28. sept. 2015

Fundur 28. sept. um börn og höfuðáverka

Almennur félagsfundur Hugarfars verður haldinn mánudaginn 28. september kl. 20 í Sigtúni 42, Reykjavík.

Ingvar H. Ólafsson heila- og taugaskurðlæknir flytur erindi um höfuðáverka hjá börnum, eðli þeirra, alvarleika og bráðameðferð.

Ólafur Thorarensen sérfræðingur í barnalækningum og taugasjúkdómum barna fjallar um heilahristing og nýjar verklagsreglur á Bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins.

Umræður og fyrirlesarar svara fyrirspurnum.

Allir velkomnir, heitt á könnunni.
Ókeypis aðgangur.

Við viljum einnig vekja athygli á vefgreinunum Börn fá líka heilaskaða og Vægir heilaáverkar ungs fólks.

 

Námskeið fyrir fagfólk um vægan heilaskaða

Búið er að opna fyrir skráningu á námskeiðið "When mild is not mild" sem Félag talmeinafræðinga á Íslandi heldur þ. 9. október næstkomandi.

Fyrirlesari er Sheila MacDonald sem er kanadískur talmeinafræðingur.  Sheila hefur yfir 25 ára reynslu af því að starfa með einstaklingum með heilaskaða, aðstandendum og fagfólki.  Hún er einnig höfundur greiningarprófsins FAVRES sem talmeinafræðingar nota til að meta einkenni vitrænnar tjáskiptaskerðingar hjá fólki með heilaskaða (e. cognitive-communicative disorder).

Sjá frekari upplýsingar um námskeiðið og skráningu á vef FTÍ á www.talmein.is/node/395.