Um Hugarfar

Hugarfar var stofnað 21. febrúar 2007 af einstaklingum með ákominn heilaskaða, aðstandendum og fagaðilum frá Fagráði um heilaskaða á Reykjalundi. Nokkru áður hafði Fagráðið haldið málþing um heilaskaða í Hringsal Barnaspítala Hringsins. Málþingið sóttu 150 manns og var þar lagður hornsteinn að stofnun félags með hagsmuni fólks með heilaskaða og fjölskyldna þeirra að meginmarkmiði.

Hugarfar er aðili að Öryrkjabandalagi Íslands og Evrópusambandi fólks með heilaskaða, BIF. Verndari Hugarfars er Dorrit Moussaieff.

Helstu orsakir áverkatengds heilaskaða eru umferðarslys, föll og líkamsárásir. Sjúkdómar geta einnig valdið heilaskaða eins og heilablóðfall, heilabólga eða súrefnisskortur t.d. við hjartastopp eða drukknun. Talið er að allt að  900 manns hljóti heilaskaða á Íslandi á ári hverju. Um 10% þeirra þurfa á sérhæfðri endurhæfingu að halda. Afleiðingar heilaskaðans eru mismunandi á milli einstaklinga. Í mörgum tilfellum eru einkennin ekki sýnileg utan á fólki og er því um dulda fötlun að ræða. Innsæilseysi er oft helsta vandamálið. Það er sjaldan sem fólk með heilaskaða hefur frumkvæði að því að leita sér hjálpar. Ástæðan er yfirleitt sú að heilaskaðinn sviptir þessa einstaklinga innsæi, þannig að þeir sjá ekki vandamálin, það skortir dómgreind til að tengja saman orsök og afleiðingar og minnisskerðing hamlar þeim að læra af reynslunni. Hætt er við að fólk sem hlotið hefur heilaskaða einangrist því félagslega.

Hugarfar vill stuðla að því að fólk með ákominn heilaskaða og aðstandendur þess njóti þjónustu og endurhæfingar við hæfi. Hér á heimasíðu félagsins má finna upplýsingar og fræðslugreinar um ákominn heilaskaða.

Starfsemi Hugarfars er er borin uppi af sjálfboðavinnu fólks með ákominn heilaskaða og aðstandenda og fjármögnuð með árgjöldum félagsmanna og styrkjum frá Öryrkjabandalagi Íslands.

Í mars 2015 opnaði Hugarfar starfsaðtöðu að Sigtúni 42, 1. hæð.

Í ársbyrjun 2016 til 2017 var Dís Gylfadóttir, guðfræðingur, ráðin sem verkefnastjóri Hugarfars í hálfu starfi.

Árið 2017 til 2021 tók Stefán John við sem verkefnastjórastöðunni.

Hægt er að hafa samband við félagið með því að senda tölvupóst á netfangið hugarfar@hugarfar.is, eða skoða Facebook hópinn Hugarfar - Umræðuhópur fyrir fólk með heilaskaða