Börn fá líka heilaskaða

Ólöf H. Bjarnadóttir og Smári Pálsson fjalla um heilaskaða hjá börnum: "Hafa ber í huga að meðferð við heilaskaða er oft fólgin í því að breyta umhverfisþáttum en ekki eingöngu einstaklingum sjálfum."Heilinn er stjórnstöð líkamans og stýrir m.a. hugsun, hegðun og tilfinningum. Þegar þessi starfsemi truflast af einhverjum völdum þá getur viðkomandi setið uppi með varanlegan heilaskaða. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að heilaskaði getur átt sér stað á öllum æviskeiðum. Börn fá líka heilaskaða!

 

Einkenni heilaskaða?
Algengasta orsök heilaskaða hjá ungum börnum eru föll og svo umferðarslys þar sem þau eru farþegar í bíl eða hjólreiðaslys. Annað sem orsakað getur heilaskaða hjá börnum eru ýmsir sjúkdómar eins og t.d. heilahimnubólga og alvarleg flogaveiki. Í kjölfar áverka er rétt að fylgjast nánar með barninu ef um truflun á meðvitund í styttri eða lengri tíma er að ræða eða ef önnur einkenni um truflun á starfsemi taugakerfis koma í ljós eins og ruglástand. Fyrstu viðbrögð foreldra þegar barn verður fyrir slysi eða alvarlegum veikindum er yfirleitt áfall vegna líkamlegra einkenna, en fólk gerir sér ekki alltaf grein fyrir því í bráðafasanum hvað hefur í rauninni gerst. Þá er gleðin yfir því að viðkomandi er á lífi einnig oft mest áberandi og stundum kemur heilaskaði hjá börnum ekki í ljós strax heldur seinna á æviskeiðinu þegar kröfur sem gerðar eru til barnsins aukast. Ef barn verður fyrir ofangreindum áföllum og í kjölfar kemur fram varanlega breytt hegðun þá er nauðsynlegt að athuga hvort um heilaskaða sé að ræða.

 

Hvernig er heilaskaði hjá börnum frábrugðinn skaða hjá fullorðnum?
Að fá áunnin heilaskaða er frábrugðið því að fæðast með aðra fötlun. Aðstandendur barna með heilaskaða hafa upplifað eðlilegan þroskaferil hjá barninu fram að skaðanum en eftir hann verður breyting á hugrænni getu og hugsanlega persónuleika viðkomandi, auk þess sem stundum fylgja önnur líkamleg einkenni. Heilaskaði getur haft nokkuð önnur áhrif á börn en fullorðna. Ein aðalástæða þess er að heili barns er enn að þroskast og skaði getur því breytt þroskaferlinu. Áður var gjarnan talið að ungur aldur við skaða væri kostur þar sem heilinn gæti þá aðlagast heilaskemmdunum og afleiðingar þannig horfið. Því miður virðist þetta ekki vera rétt nema að takmörkuðu leyti. Heilaskaði skerðir yfirleitt getuna til að bæta við sig þekkingu og því hætt við að börn sem verða fyrir heilaskaða nái ekki að þroskast eins og önnur börn. Fullorðinn einstaklingur sem verður fyrir heilaskaða býr að fyrri reynslu og þekkingu, en barn sem verður fyrir heilaskaða áður en það hefur öðlast ýmsa grunnþekkingu og félagslegan þroska er hinsvegar verr statt. Ýmis flókin sálfélagsleg atriði koma seint í þroskaferlinu og ekki óalgengt að einstaklingar séu að þroska þennan hæfileika og ná leikni í honum um og eftir unglingsárin. Þeir sem verða fyrir heilaskaða áður en þeir taka út þennan þroska vantar því ýmis gildismöt sem fullorðnir hafa.

 

Skert námsgeta barna með heilaskaða
Barn með heilaskaða þarf yfirleitt að hafa mikið fyrir náminu og sérstaklega þegar skólaganga krefst orðið meiri hugsunar og þroska samhliða öðrum vaxandi kröfum. Ef barn er með heilaskaða þá þurfa umönnunaraðilar að vera meðvitaðir um slíkt því meðferð við heilaskaða er ekki alltaf sú sama og meðferð við sértækum námserfiðleikum vegna t.d. þroskafrávika. Ef barn fær ekki markvissa meðferð vegna heilaskaða er hætta á að barnið verði útundan í menntakerfinu og það fyllist óöryggi og vanmáttarkennd, því umhverfið og hinn heilaskaðaði hafa ekki vitneskju um og því síður skilning á hvert eðli vandamálsins er í rauninni. Þannig getur barn með vangreindan heilaskaða farið á mis við að hljóta uppeldi og menntun sem er í samræmi við getu þess.

 

Hvað á að gera?
Þegar barn fær heilaskaða er mikilvægt að stuðningur sé til staðar í þjóðfélaginu, bæði fyrir börnin og ekki síður foreldrana sem bera oft þunga byrgði. Foreldrar þurfa að fá persónulega aðstoð og stuðning og oft gagnast að kynnast öðrum í svipuðum aðstæðum.

Ef börn eða unglingar fá heilaskaða eru þrír þættir mikilvægastir. Sá fyrsti að greina vandamálið, en það er forsenda réttrar meðferðar. Í öðru lagi þarf að setja markmið þar sem tekin eru mið af veikleikum og styrkleikum viðkomandi, samfara því sem tekið er mið af námsskrá ef barn er í námi. Í þriðja lagi þarf að upplýsa og aðlaga umhverfið eins og hægt er að þörfum barns með heilaskaða, þ.e.a.s. aðstandendur, þjónustukerfin og menntastofnanir. Hafa ber í huga að meðferð við heilaskaða er oft fólgin í því að breyta umhverfisþáttum en ekki eingöngu einstaklingum sjálfum. Einnig þarf fagfólk með þekkingu á heilaskaða að fylgja þessum börnum eftir því umhverfi barna er síbreytilegt og ýmis atriði geta verið frábrugðin þeim sem tíðkast varðandi börn með náms- og hegðunarvandamál.

Mikilvægt er að hjálpa börnum með heilaskaða. Til að svo megi vera þurfa allir að leggjast á eitt við að greina vandamálin réttilega frá upphafi og veita svo sérhæfða og persónubundna meðferð.

 

Ólöf H. Bjarnadóttir, læknir
Smári Pálsson, sálfræðingur
Taugasvið Reykjalundar