Fundir Heilaheillaog Hugarfars

Þá er vetrarstarfið hafið.

Fundir fyrir félaga Heilaheilla og Hugarfars verða í fundaraðstöðu félaganna í Sigtúni 42 í Reykjavík á mánudögum kl. 13-15 (málörðugleikar/málstol) og á þriðjudögum kl.13-15 (allir).  Einnig verða fundir á Greifanum á Akureyri annan þriðjudag hvers mánaðar kl. 18-19.  Félagar beggja félaganna og aðstandendur eru velkomnir!

Samkomuleg er á milli félaganna um félagslega og breytilega endurhæfingu þeirra er hlotið hafa heilaskaða, hvort heldur eftir slag eða ákominn heilaskaða. Þegar talað er um félagslega endurhæfingu er átt við að heilaskertir og aðstandendur þeirra ræða málin sín á milli, án aðkomu fagaðila til að byrja með. Hér er verið að reyna að brúa bilið á milli heilbrigðiskerfisins og einstaklingins.

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka 2015

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka 2015 fer fram laugardaginn 22. ágúst.

Þar gefst hlaupurum kostur á að styrkja góð málefni. Hugarfar hefur skráð sig sem eitt af góðgerðarfélögunum sem hlauparar geta hlaupið fyrir og fólk heitið á.

Hugarfar vinnur að undirbúningi að opnun stuðningsþjónustu og vinnusamfélags fyrir einstaklinga með heilaskaða. Í dag eru fá úrræði fyrir einstaklinga með ákominn heilaskaða og því mikil þörf á að stuðningur sé til fyrir þá sem lenda í þessum aðstæðum.
Hlaupum eða styrkjum Hugarfar svo draumur Hugarfars geti orðið að veruleika, að opna Höfuðhús á Íslandi. Við hvetjum ykkur til þess að hlaupa fyrir Hugarfar.

Þið sem viljið hlaupa, skráið ykkur til hlaups á marathon.is. Það má finna vegalengd við allra hæfi. Hlaupið er allt frá Latabæjarhlaupi, 550 metrar fyrir 5 ára og yngri, 1.3 km. fyrir 6-8 ára og allt upp í heilt maraþon sem er 42,195 km.

Þeir sem velja að hlaupa til góðs, veljið Hugarfar á áheitavefnum hlaupastyrkur.is , setjið inn mynd af ykkur og segið gjarnan frá ástæðunni fyrir að þið hlaupið fyrir Hugarfar.

Verið dugleg að hvetja fólk til að heita á ykkur.

Ykkur, sem ekki hlaupið, biðjum við að heita á hlauparana sem hlaupa fyrir Hugarfar. Hvetjið jafnframt vini og vandamenn til þess líka. Notið Facebook og aðra samfélagsmiðla eins og hverjum hentar. Þannig gætuð þið lagt Hugarfari lið í áheitasöfnuninni.

Sumarlokun skrifstofu Hugarfars

Skrifstofa Hugarfars er lokuð frá 15. júní.  Við opnum aftur mánudaginn 24. ágúst.

Alltaf er hægt að hafa samband í síma Hugarfars 661-5522.  Ef ekki er svarað í símann þá vinsamlegast leggið inn skilaboð í talhólf símans ásamt símanúmeri ykkar og hringt verður til baka við fyrsta tækifæri.

Skógaferð 20. júní 2015

Sumarferðalag framundan!

Framundan er ferð til Skóga undir Eyjafjöllum.  Félagið Heilaheill stendur fyrir ferðinni og býðst félögum í Hugarfari og Hjartaheill að slást með í för. 

Kostnaðinum er haldið í lágmarki til að auðvelda sem flestum að vera með.  Ferðin er með farastjóra sem sér um að halda uppi fjöri og miðla fróðleik á meðan ferðinni stendur öllum til skemmtunar.

Sjá frekari upplýsingar í myndinni hér að neðan.

skogaferd.jpg

Stattu með taugakerfinu

Hugarfar vill koma eftirfarandi boðskap á framfæri frá landsátakinu Stattu með taugakerfinu:

Skrifaðu undir ÁSKORUN TIL SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA

Mænuskaðastofnun Íslands, SEM samtök endurhæfðra mænuskaddaðra, MS félagið, MND félag Íslands, Lauf félag flogaveikra, Heilaheill, Geðhjálp og Parkinsonsamtökin hafa hrundið af stað landsátaki og óska eftir stuðningi íslensku þjóðarinnar við áskorun til Sameinuðu þjóðanna um að efla rannsóknir á taugakerfinu og auka á þann hátt skilning á starfsemi þess. Sameining krafta sérfæðinga og vísindamanna á alþjóðavísu sé grundvöllur að gera lækningu að veruleika.
Hjálpaðu okkur að gera lækningu að veruleika og með því að skrá nafn og kennitölu með einföldum hætti á vefsíðuna www.taugakerfid.is

Meginástæða þess hve erfiðlega gengur að finna lækningu við til dæmis mænu- og heilasköðum og taugasjúkdómum er sú að vísindasamfélagið hefur takmarkaðan skilning á virkni taugakerfisins.

Það eru gríðarlega miklir hagsmunir í húfi, félagslega, siðferðilega og efnahagslega. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, WHO, er áætlað að yfir 1 milljarður manna um allan heim þjáist af sjúkdómum og skaða í taugakerfinu. Ekkert eitt líffærakerfi skapar meiri fötlun en taugakerfið. Auk heila og mænuskaða er fjöldi tauga- og geðsjúkdóma eins og Alzheimers, heilaskaði vegna heilablóðfalls, flogaveiki, MND, MS, Parkinson og heilaglöp. Samkvæmt WHO er tíðni ofangreindra sjúkdóma að aukast sem kallar enn frekar á áríðandi aðgerðir í þessum málum.

Með átaki Sameinuðu þjóðanna og stuðningi alþjóðasamfélagsins er hægt að stuðla að því að gera lækningu að veruleika. Til þess að það takist þarf að efla rannsóknir á alþjóðavísu á taugasjúkdómum og taugaskaða og sameina krafta sérfræðinga og vísindamanna á alþjóðavísu. Það myndi leiða til framfara í meðferð og lækningu, minnka andlega og líkamlega fötlun í veröldinni til muna og létta byrðum af langveikum, fjölskyldum þeirra og þjóðfélögum.

Hugarfar hvetur alla félagsmenn sína til að styðja þetta einstæða átak. Hvetjið ættingja og vini til að skrá nafn sitt undir áskorunina á www.taugakerfid.is.

Sjá nánar á vefsíðunni www.taugakerfid.is og umfjöllun Kastljóss 12. maí 2015.

Fundir um málörðugleikaog málstol

Félögin Heilaheill og Hugarfar hafa í vetur verið með með sameiginlega fundi þar sem málörðugleikar og málstol hafa verið til umfjöllunar. Fundirnir eru haldnir á mánudögum kl. 13-15 í Sigtúni 42, 105 Reykjavík. Bryndís Bragadóttir, félagi í HEILAHEILL hefur umsjón með fundunum.

Áhugasamir hafi samband í síma 860 5585, hægt er að biðja um SMS-áminningu fyrir fundi.
Sjá nánar á vefsíðunni heilaheill.is.

Allir velkomnir og kaffi á könnunni!

Félagsfundur 4. maíÞjálfun með Mitii forritinu

Almennur félagsfundur Hugarfars verður haldinn mánudaginn 4. maí kl. 20 í Sigtúni 42, Reykjavík.

Stefán Örn Pétursson, sjúkraþjálfari hjá Sjúkraþjálfuninni AFL, kynnir nútímalega þjálfun með aðstoð tölvuforritsins Mitii fyrir einstaklinga með heilaskaða.

Upphaflega var Mitii forritið hannað fyrir börn með heilalömun (CP) en rannsóknir hafa sýnt að þjálfun með forritinu getur aukið bæði hreyfigetu og vitræna færni hjá öllum einstaklingum með heilaskaða.

Kaffi, te og konfekt,
Allir velkomnir.