Stattu með taugakerfinu

Hugarfar vill koma eftirfarandi boðskap á framfæri frá landsátakinu Stattu með taugakerfinu:

Skrifaðu undir ÁSKORUN TIL SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA

Mænuskaðastofnun Íslands, SEM samtök endurhæfðra mænuskaddaðra, MS félagið, MND félag Íslands, Lauf félag flogaveikra, Heilaheill, Geðhjálp og Parkinsonsamtökin hafa hrundið af stað landsátaki og óska eftir stuðningi íslensku þjóðarinnar við áskorun til Sameinuðu þjóðanna um að efla rannsóknir á taugakerfinu og auka á þann hátt skilning á starfsemi þess. Sameining krafta sérfæðinga og vísindamanna á alþjóðavísu sé grundvöllur að gera lækningu að veruleika.
Hjálpaðu okkur að gera lækningu að veruleika og með því að skrá nafn og kennitölu með einföldum hætti á vefsíðuna www.taugakerfid.is

Meginástæða þess hve erfiðlega gengur að finna lækningu við til dæmis mænu- og heilasköðum og taugasjúkdómum er sú að vísindasamfélagið hefur takmarkaðan skilning á virkni taugakerfisins.

Það eru gríðarlega miklir hagsmunir í húfi, félagslega, siðferðilega og efnahagslega. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, WHO, er áætlað að yfir 1 milljarður manna um allan heim þjáist af sjúkdómum og skaða í taugakerfinu. Ekkert eitt líffærakerfi skapar meiri fötlun en taugakerfið. Auk heila og mænuskaða er fjöldi tauga- og geðsjúkdóma eins og Alzheimers, heilaskaði vegna heilablóðfalls, flogaveiki, MND, MS, Parkinson og heilaglöp. Samkvæmt WHO er tíðni ofangreindra sjúkdóma að aukast sem kallar enn frekar á áríðandi aðgerðir í þessum málum.

Með átaki Sameinuðu þjóðanna og stuðningi alþjóðasamfélagsins er hægt að stuðla að því að gera lækningu að veruleika. Til þess að það takist þarf að efla rannsóknir á alþjóðavísu á taugasjúkdómum og taugaskaða og sameina krafta sérfræðinga og vísindamanna á alþjóðavísu. Það myndi leiða til framfara í meðferð og lækningu, minnka andlega og líkamlega fötlun í veröldinni til muna og létta byrðum af langveikum, fjölskyldum þeirra og þjóðfélögum.

Hugarfar hvetur alla félagsmenn sína til að styðja þetta einstæða átak. Hvetjið ættingja og vini til að skrá nafn sitt undir áskorunina á www.taugakerfid.is.

Sjá nánar á vefsíðunni www.taugakerfid.is og umfjöllun Kastljóss 12. maí 2015.