Vægir heilaáverkar ungs fólks

 

JGH.jpg

Jónas G. Halldórsson sálfræðirgur, sérfræðingur í klínískri taugasálfræði við sálfræðiþjónustu LSH Grensási.

 

 

Jónas G. Halldórsson skrifar:

Flestir heilaáverkar verða af völdum höfuðhöggs, sem kemur hreyfingu á heilann og veldur álagi á heilavef, taugafrumur og taugasíma. Þegar höggið er vægt virðist heilinn yfirleitt ná sér að fullu á nokkrum dögum eða vikum, en þegar höggið er þyngra kann það að leiða til álags á taugasíma sem veldur skaða og langvinnum einkennum, sem hafa áhrif á hugræna þætti, atferli, aðlögun og líðan.

Vægasta form heilaáverka er heilahristingur, sem einkennist af einkennum svo sem ógleði, uppköstum, svima, ruglástandi, svefnhöfgi eða skertri meðvitund. Heilaáverkar eru algengir. Gera má ráð fyrir að í hópi ungs fólks á aldrinum 15-35 ára hafi helmingurinn hlotið heilahristing eða annan heilaáverka. Í flestum tilvikum eru heilaáverkar vægir og einstaklingurinn virðist ná sér að fullu á nokkrum dögum, vikum eða mánuðum eftir atburðinn.

Stundum valda „vægir" heilaáverkar þrálátum afleiðingum til lengri tíma. Þungt höfuðhögg er líklegra til að valda langtímaafleiðingum en léttara högg. Einstaklingur sem hefur hlotið heilahristing eða heilaáverka oftar en einu sinn er líklegri til að vera með langtímaafleiðingar en sá sem hefur hlotið áverka einu sinni. Endurtekin höfuðhögg, jafnvel þótt þau valdi ekki einkennum heilahristings, geta leitt til þrálátra einkenna. Þegar heilinn er að ná sér eftir höfuðhögg og heilahristing er hann sérstaklega viðkvæmur fyrir öðru höfuðhöggi.

Ungt fólk er ekki síður viðkvæmt fyrir afleiðingum heilaáverka en þeir sem eldri eru. Heilaáverkar eru ógn við hugræna heilsu. Fyrirbyggjandi aðgerðir eru mikilvægar til að draga úr líkum þess að ungt fólk hljóti heilahristing og heilaáverka. Hjálmar og annar öryggisbúnaður hafa sannað gildi sitt. Endurtekin höfuðhögg hafa ávallt hættu í för með sér, jafnvel þótt þau séu væg. Eftir heilahristing þarf að gæta þess að andlegt og líkamlegt álag sé ekki of mikið, þar til einkenni gera ekki lengur vart við sig, og draga þarf úr líkum á endurteknum heilahristingi.