Ég heiti Ragnheiður og er maki og aðstandandi manns með heilaskaða, við höfum verið saman í 4 ár og eigum 19 mánaða son saman.
Þessi 4 ár hafa ekki verið dans á rósum en ég myndi samt ekki vilja fara til baka og breyta því vegna þess að það gerir mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Það er alls ekki allra að geta eða vilja vera í sambandi með manneskju með ákominn heilaskaða vegna þess að maður þarf að fórna ýmsu og þola allskonar aðstæður sem gera ekki endilega boð á undan sér.

Maðurinn minn er með þannig skaða að hann er með svefnvandamál, snýr sólarhringnum við. Hann á erfitt með að vera í miklu áreiti og látum. Stundum getur hann ekki talað sjálfur og á erfitt með að panta sér mat og stundum lendir hann í því að stama eða bara kemur ekki upp orði. Hann fær stundum köst sem einkennast af sjálfseyðingu, kemur illa og ljótt fram við alla í kringum sig og hefur enga stjórn á því sem hann gerir vegna þess að hann er ekki meðvitaður um það fyrr en eftir á. Hann segir allskonar ljóta hluti sem særa aðra og þarf svo að lifa með því eftir á því hann man allt sem hann sagði og gerði. Þessi köst fær hann af því að hann er kannski undir miklu áreiti og vanlíðan eða bara vegna erfiðra aðstæðna sem triggera það. Hann reynir sem mest sjálfur að forðast þannig aðstæður því að honum líður svo illa að lenda í þessu. Fyrir mig sem maka þá er þetta svo erfitt þvi að hann er öruggastur með mér og er alltaf í kringum mig og með mér og þar af leiðandi finn ég mest fyrir þessu öllu saman. Með mér getur hann verið hann sjálfur með heilaskaða. Ég reyni mitt besta að sýna þessu skilning og svona en stundum koma dagar þar sem ég er gjörsamlega búin á því og á mjög erfitt með þetta og svo erum við bæði líka alltaf bara að læra hvernig við komumst í gegnum daginn og lífið svona. Ég reyni að vera dugleg að fræðast og lesa mér til og skilja en eins og er er ekkert of mikið í boði en það er nú vonandi að breytast. Maðurinn minn getur ekkert hugsað um son okkar og þá fellur það í mitt verk að gera það svo það mætti segja að ég sé eins og einstæð móðir en bý samt með manni. Ég er undir miklu álagi alla daga þar sem ég verð að sýna skilning og passa að búa ekki til erfiðar aðstæður en með aktívan og hressan gutta er það ekkert of auðvelt. Plús það er ég með blússandi ADHD og gengur misvel að halda aftur af því .... en ég reyni mitt besta að hugsa um sjálfa mig líka og gera eitthvað sem mig langar, ég er t.d. að stunda ræktina og keppa í aflraunum og kraftlyftingum, það er svona minn hlutur fyrir utan strákinn minn, en ég er samt að glíma við kvíða og þunglyndi líka svo að þetta allt er ekkert svo auðvelt en ég berst og kemst í gegnum þetta. Svo á fólkið í kringum mig mis auðvelt með að samþykkja maka minn og sumir skilja ekki hvernig ég geti verið með svona manni en sem betur fer eru það mjög fáir, en það stingur samt þegar það getur ekki sett sig í þau spor sem ég er í og reynt að sýna skilning og virða mínar ákvarðanir og sleppa því að dæma. Annars fæ ég líka mjög oft hrós fyrir það hvað ég er dugleg og sterk að gefast ekki upp og geta fórnað ýmsu til að vera með honum. En annars á maður ekki að láta álit annara hafa áhrif á sig sem ég reyni að gera og held mínu striki því að ég á marga góða að og er þakklát fyrir það fólk sem skilur og virðir mínar ákvarðanir og það er það eina sem ég þarf. Allavega þá er þetta í stuttu máli svona sirka mitt sjónarhorn sem aðstandandi og maki. Þetta er ekki auðvelt en það eru líka góðir dagar og stundir þar sem allt er æðislegt og allt gengur upp og maður heldur áfram að læra til að komast í gengum lífið.