Ég lenti í mótorhólaslysi í maí 2007 þegar ég fór að ná mér og þóttist læra að lifa með heilaskaða, ekki að ég hafi val, þessi fötlun er sífellt að læðast aftan að mér. Ég tel mig full færan um alla mögulega hluti en gleymi í sífellu hvað það háir mér, og alltaf verð ég jafn hissa, ég hafði ekki hugmynd um að það væri eitthvað til sem heitir andleg þreyta fyrr en á reyndi og það eru þrír mánuðir síðan ég byrjaði að tala um að skipuleggja mig og ekkert gerist því þetta er einn af þessum hlutum sem ég vill gera sjálfur og að hafa sig af stað yrði afrek í sjálfum sér.

 

Heilaskaði - hinn þögli faraldur, það er mikið til um heilaskaða og hvað það er sem hann hefur áhrif á í lífi fólks en ekkert um reynslu fólks sem hefur heilaskaða, hvort sem það er skömm eða eitthvað annað þá ímynda ég mér að fólk með þessa fötlun mæti meiri skilningi ef annað fólk myndi heyra um heilaskaða frá fleiri hliðum, þá á ég við frá öðrum en það þekkir og læknar hafa ekki upplifað þessa fræði sem þeir predika, þá væru þeir ekki læknar... lengur.

 

Ég setti "topp tíu lista" hér efst bæði til að minna mig á hvað ég er að skrifa og hafa skipulag á þessum skrifum. En að muna er eitthvað sem ég þurfti að læra upp á nýtt og það er víst til tækni til að muna, þetta er eitthvað sem ég vissi ekki fyrr en ég fékk heilaskaða en þessi tækni byggist að hluta á athygli en það er eitthvað sem mig skortir líka, því til samanburðar að ef maður missir sjónina þá verður heyrnar- og lyktarskyn næmara, ég vil meina að sé maður með slæma heyrn og missir sjónina þá hlýtur heyrnin allavega að skána. Samskiptin í mínu tilfelli hafa ekki versnað en eru ekkert skárri heldur þau eru bara flóknari, ég orðlengi allar setningar og að finna orð er ekki mín sterka hlið, stundum stend ég mig að því að vera að hugsa um það sem ég er að segja og hvernig fólkið sem ég er að tala við skilur mig og þá hvernig ég get útskýrt það betur sem ég er að segja áður en ég er kominn á enda setningarinnar og úr verður einhver orðlengja sem ekki er hægt að skilgreina á neinn vitsamlegan hátt, sama af hvaða tungumáli það væri yfirfært á íslensku. Þá er ég yfirleitt kominn með vísifingur vinstrihandar á loft og er að teikna eitthvað máli mínu til stuðnings en er bara að krassa útí loftið og löngu hættur að hafa fulla stjórn á bullinu sem flæðir úr vitum mér.

 

Áætlun er eflaust afskaplega góður pési til að vinna eftir en að gera áætlun og fylgja henni er hingað til bara til þess að tala um, ég skil vandamálið, ástæðuna fyrir því og sé lausnina en geri bara það sem mér dettur í hug án þess að tala um það við neinn. Hreyfifærnin er ótrúleg miðað við að vera rétthentur og ekki með mátt fyrir neðan olnboga hægri handar, andlega þreytan er hvað keyrir mig mest niður og líkamlegt erfiði myndi réttlæta þessa upplifun en andlegt þol er ekki æft svo að ég viti. Þó að ég taka ákvörðun sem ég er alsæll með og hefur engar sjáanlegar eða hugsanlegar afleiðingar getur hún verið svo röng og gagnrýnin sem rignir yfir mig ætlar aldrei að ljúka, þetta er svo augljóst og auðrökstutt, þá verða viðbrögð mín við slíkri gagnrýni oft röng að sumra mati í ofanálag. Frumkvæði mitt er eingöngu fyrir minn hag, ég hugsa ekki út fyrir kassann nema fyrir mig, reyndar geri ég mjög lítið af því að hugsa út fyrir kassann því að mér virðist vegna best á því að fylgja þessari blessuðu, blessuðu línu sem ég fann mér.

 

Þetta er það sem virkar fyrir mig, ég vona að þetta hjálpi einhverjum og/eða útskýri það fyrir öðrum. Ég var reyndar byrjaður strax að grínast með það þegar mér var tjáð að ég væri með heilaskaða að það væri fínt því nú hefði ég afsökun fyrir öllu, það hefur reyndar ekkert breyst því að ef maður hefur ekki húmor fyrir sjálfum sér, hvernig getur maður þá hlegið yfirleitt.

 

Ég hef þegar fengið gagnrýni fyrir skrif mín en grein þessi er skrifuð af manni með heilaskaða, ef þú lesandi góður færð einhvern skilning úr þessu þá ertu þó skrefinu nær því að sjá hvað það er að lifa með þessum þögla faraldri og ef ekki endilega lestu þessi skrif mín aftur með öðru viðhorfi t.d. að þetta er nær talmáli sem orðræða og er til útskýringar fremur en skilnings á heilaskaða hjá einum einstakling.

 

10. Helstu breytingarnar sem verða af völdum heilaskaða:

  1. Minni
  2. Athygli
  3. Samskipti
  4. Hraði hugsanna og hreyfinga
  5. Lausnarmiðuð hugsun/áætlun
  6. Hreyfifærni
  7. Þreyta
  8. Dómgreind
  9. Tilfinninga- og hegðunarstjórnun
  10. Frumkvæði.

 

Virðingarfyllst
Þórarinn Karlsson