Hulda Mýrdal Gunnardóttir

Reynslusaga - Hulda Mýrdal Gunnarsdóttir.jpg
 
 

Það minnsta sem ég get gert er að skrifa smá pistil eftir að ég sá stórvinkonu mína Guðbjörgu lækni í fréttunum í gær og vona að ég opni einhver augu hvað heilaáverkar geta haft alvarlegar og langvarandi afleiðingar í. Get ekki verið minni kona en Guðbjörg.
Ég vildi að ég hefði fengið að lesa þennan pistil sama kvöld og ég fékk olnbogaskot í hausinn,þá hefði ég kannski farið öðruvísi að. Ég hafði ekki hugmynd um hvað var í gangi.Endalausir verkir og ég varð hrædd því ég hafði aldrei fundið neitt svona áður. Þetta eru ekki dæmigerð fótboltameiðsl. Þetta sést ekki utan á fólki og maður veit ekki hvenær þetta tekur enda. Stórhættulegt andlega og líkamlega.

Eitt högg
-540 dagar. 150 sjúkraþjálfunartímar. 80 tímar í iðjuþjálfun. Sálfræðitímar. 30.000 verkja,tauga og svefnlyf. Og til að leyfa ykkur að vera með, svona milljón tár. Stundum hef ég ekki vitað muninn á því að hlæja og gráta.

Það eru 18 mánuðir síðan þetta gerðist hjá mér. Eitt högg aftan í hausinn á mér og ég er enn að díla við afleiðingarnar. Ég datt í jörðina í fótboltaleiknum en svimaði bara aðeins en hélt áfram og kláraði leikinn.

- ef þið fáið högg í hausinn og finnið að það er fast. Drullið ykkur útaf sama hvað. Það er betra að sleppa kannski 50 mínútum í einum leik en að getað aldrei gert það sem ykkur finnst skemmtilegast aftur.

-læknirinn daginn eftir sagði "taktu því rólega". Fyrir mér var það að sleppa því að æfa 8 sinnum í viku.
Þeir sem þekkja mig eitthvað vita að fyrir þetta var ég frekar ofvirk eða er það svosem enn inn í mér. Var fyrirliði í liðinu mínu og kláraði bs nám í sálfræði. Ef það var ekki spinning fyrir fótboltaæfingu þá var það útihlaup í kringum sjálfa mig. Allavegana allt sem ég hef haft ótrúlega gaman af hefur snúist um að einhverskonar hreyfingu og það gaf mér ótrúlega gleði. Ég hef til dæmis aldrei verið lunkin að prjóna. Hef alltaf harkað af mér og verið á hundrað. Ég hélt áfram að pína mig í vinnu á verkjalyfjum og vonaði að þetta myndi ganga yfir. Var óglatt, með sjóntruflanir, hausverk, þyngsli í höfðinu, hellu og svimaði. Keyrði mig áfram og beið. Grét úr verkjum. Keyrði mig út í vinnu þangað til í febrúar(7 mánuðum eftir högg) með hléum.

Semsagt frá 29.júlí 2015- 28.febrúar 2016 hringsnerist ég, án þess að fá hjálp því ég vonaði að þetta myndi bara lagast.Byrjaði að vinna. Hætti að vinna. Byrjaði aftur þangað til ég var orðin rúmliggjandi. Þangað til ég sá viðtal við stelpu sem hafði lent í því sama og heyrði í henni og hún benti mér á hjálp. Ef ég hefði fótbrotnað og haldið áfram að keyra mig út einsog ég gerði hefði fólk sagt eitthvað við mig. Bent mér kannski á að slaka á og hvaða vitleysa þetta væri í mér. En þetta er ósýnilegt.
-ef þið fáið högg í hausinn og finnið fyrir einkennum. Takið því rólega. Ekki reyna á ykkur. Takið því rólega þangað til einkenni fara. Með því að pína sig áfram lengist bara tíminn sem það tekur heilann að jafna sig.

Það sem gleður mig er að þetta mar á heilanum á mér mun lagast. En það mun taka tíma. En helvítið, hausverkir og þreyta, síðustu sirka 540 daga er alveg fjandi nóg. Í fyrsta skipti á ævinni hef ég t.d. verið einmanna. En hafði kannski gott af því að prófa að hanga með sjálfri mér en fyrr má nú vera. Allavegana. Það að vera ekki lengur kringum fólk í vinnunni,eiga samræður við allskonar fólk, þurfa að einangra mig frá vinum, komast ekki hitt og þetta og að þurfa að hætta í fótbolta. Að geta ekkert hreyft mig. Þetta voru afleiðingarnar eftir að ég bókstaflega keyrði mig út því ég vissi ekki betur.

Á einu augabragði er öllu kippt undan manni og það er áfall. Það er ekkert hægt að fegra það.

Stelpa sem hafði lent í svipuðu benti mér á Grensás. Þar hitti ég loksins lækna sem höfðu höndlað þetta áður og byrjaði í endurhæfingu. Þá var ég komin á þann stað að mér fannst ég vera föst í martröð. Mér hafði farið versnandi hvern einasta dag með því að gefa mér engann tíma í að jafna mig. Hálfu ári eftir höggið var ég orðin að tjóni. Með hausverk alla daga. Allar samræður eða hljóð skárust í hausinn á mér. Varð pirruð við að vinna úr samræðum, varð að vera mikið ein. Bara lítil hljóð í bílnum þegar ég var að keyra sörguðu í hausnum á mér. Varð óglatt við það að horfa á tölvuskjá. Þurfti endalaust að vera að einangra mig og lá útaf með mína eyrnatappa. Prófaði að fara í áramótabolta, grét úr verkjum í tvær vikur. Prófaði að labba Esjuna, var rúmliggjandi í 3 vikur. Ég var stanslaust að reyna og reyna gera það sem ég hafði gert áður. Það var rothögg í hvert einasta skipti. Og það er ekki létt. Ég er enginn Mike Tyson.

18 mánuðum seinna. Í dag líður mér mun betur þó þetta séu hænuskref,en ég elska þessi hænuskref. Ég get gert helling af hlutum sem ég gat ekki gert og þetta tekur mig miklu minni tíma að jafna mig ef ég geri of mikið. Ég þarf vissulega að taka verkjalyf áður en ég hitti fólk en ég get hitt fólk og guð minn góður hvað það er gott! Og ég get farið að lyfta og hjóla í ræktinni og hjálpi mér, aldrei vitað um eins góða tilfinningu. Ég á miklu fleiri góðar klukkustundir þar sem ég er ekki með hausverk og ég nýti þær einsog góðan Royal búðing. Alveg allan.

Það gerir heldur ekkert fyrir mig að vera að hugsa um að ég geti ekki hitt og þetta, að ég geti ekki tekið 50 kassahopp í röð einsog dömurnar í laugum, afhverju ég geti bara hjólað einsog eldri borgari í 10 mínútum, að ég þurfi að sofa í 5 tíma eftir 2 tíma barnaafmæli, sé ekki komin strax að vinna, hvernig það muni ganga þegar ég fer aftur í skóla, hvort það muni ganga, hvort ég muni einhverntíman getað farið með systkinum mínum í fótbolta.Ég eyddi öllum mínum tíma í svona hugsanir. Þetta þýðir ekkert fyrir mig og það hef ég fattað. Einn dag í einu.

Ég hef þurft að líta í kringum mig eftir fleira í lífinu en 160 púlsahreyfingu og hef lært heilmikið nýtt. Ég er orðin landsliðskona í sundi, orðin veggskraut í allskonar hugleiðslu, get gert downwardfacing dog án þess að kasta upp, er byrjuð að skoða prjónabækur og sé fullt af fínum hlutum í lífinu sem ég hafði ekki tíma í áður því ég var að þjóta á milli staða. Ég er komin með þolinmæði á við 130 ára dömu og umburðarlyndari en afgreiðslustúlka í Bónus. Ég rækta ömmu og afa og vini mína einsog góð heilsársblóm og er þakklátari sem aldrei fyrr fyrir hvað ég á marga snillinga í mínu lífi. Er t.d. búin að hækka meðalaldur á vinkonum mínum um 40 ár síðan ég byrjaði í Heilsuborg sem er geggjað.

Markmið mitt með því að opna mig( og fara langt út fyrir þægindarammann)er að ég vil er að fólk taki heilaáverkum alvarlega strax. Þjálfarar, leikmenn, heilbrigðiskerfið, allir saman. Þegar kemur að þessu þá má ekki harka af sér. Ég hefði átt að hætta að spila strax og hætta að vinna strax. Og það eitt og sér að vita ekki hvar er hægt að fá hjálp er stórhættulegt. Ég var búin að missa alla von. Blákalt þá var staðan þannig að mig langaði ekki að lifa lengur, með þessa verki og vita ekki neitt. Það að komast inná Grensás bjargaði lífinu mínu, í orðins fyllstu.

Ég vil ekki að neinn gangi í gegnum þetta sama og ég síðustu 540 daga og henti í lauflétt myndband frá degi í mínu lífi. Þeir eru steiktir en ég reyni að hafa gaman í stað þess að svekkja mig. Ég geri venjulega eitthvað og svo þarf ég að leggja mig og svona gengur þetta út daginn. Ég er alltaf að borga fyrir að hafa gaman má segja en tökum því. Nóg til! Reyni að gera allt til að ná heilsu og get ekki beðið eftir því að fara í t.d. meira nám sem ég hef þurft að fresta um 2 ár. En aftur. Tökum einn dag í einu góðir hálsar.

En ástæðan fyrir því að ég get skrifað þetta núna er að ég er orðin þúsund sinnum sterkari eftir þessa reynslu. Ég lærði meira en ég hélt að ég myndi einhverntíman gera allt lífið. Ég myndi nú kannski ekki panta þetta svona fyrirfram að fara í gegnum. En þetta gerðist og hefur sýnt mér lífið í allt öðru ljósi. Ég tók líka ákvörðun. Ég ætla að rúlla mér í gegnum þetta líf í sama góða skapinu og ég var vön að vera í og halda áfram að hafa gaman. Verið góð við hvort annað. Hejdo