Slysið

Aðfaranótt gamlársdags 2002, þegar ég var 19 ára lenti ég í alvarlegu bílslysi. Ég missti meðvitund en vaknaði á nýársmorgun 2003. Ég hafði verið send í heilaskanna sem sýndi ekkert en var svo send í betri skanna þegar ég var vöknuð þar sem sást greinilegur heilaskaði á fjórum stöðum og meðal annars í heilastofni. Læknisfræðilegt mat var að ég hefði hlotið vægan en dreifðan heilaskaða.

Þegar ég vaknaði var vinstri hlið líkamans lömuð, þar á meðal andlitið. Ég þekkti fólkið mitt strax en þegar mamma spurði mig hvað ég væri gömul sagði ég að ég væri annaðhvort níu eða sextán ára.

Á næstu dögum voru lagðar fyrir mig hinar ýmsu spurningar og mamma bað vinkonu mína að spyrja mig spurninga úr skólanum. Hún bað mig að beygja sögn á spænsku og ég fór létt með það. Ég mundi hvenær ég átti vaktir næst í vinnunni en ég spurði á hverjum degi í viku hvort það væri Gamlaárskvöld í kvöld. Ég sá stundum ofskynjanir fyrst á eftir og var mjög rugluð, ég hélt t.d. að vinkona mín væri í Víetnam. Sjónin skaddaðist líka, vegna skaða í heila á tveimur stöðum. Annars vegar var ég með mikla sjónsviðsskerðingu á báðum augum. Ég sá bara til vinstri með báðum augum, 50% sjón, hins vegar var ljósopið á vinstra auga alveg opið og fjarsýni líka á því auga.

 

Grensás

Ég fékk pláss á Grensásdeild í endurhæfingu 13.janúar. Þar fór ég í sjúkraþjálfun, að æfa vinstri hliðina, jafnvægið og að ganga sjálf. Ég var í iðjuþjálfun þar sem ég æfði fínhreyfingarnar, t.d. í vinstri hendinni, var leiðbeint svo ég yrði meðvituð um að greiða hárið á morgnanna og taka mig til svo eitthvað sé nefnt. Ég var í tímum hjá talmeinafræðingi þar sem ég æfði mig að lesa, ég hitti taugasálfræðing reglulega sem lagði fyrir mig ýmis verkefni til að meta skaðann og lét mig m.a. halda dagbók sem ég átti að skrifa í nokkrum sinnum á dag svo ég gæti séð á kvöldin hvað ég hafði gert yfir daginn, annars var það gleymt.

Ég vildi lítið borða á spítalanum því ég fann ekkert fyrir hungri (ekki þreytu heldur) og fannst maturinn ólystugur. Ég var viktuð reglulega og vel fylgst með mér og einhvern tíma var svo fenginn næringarfræðingur úr átröskunarteyminu uppi á geðdeild til að koma og ræða við mig, en ég sá ekki að neitt væri að. Ég leitaði mér hjálpar um haustið við átröskuninni og fór í tíma upp á geðdeild sem hjálpuðu mér að sigrast á þessu. Þetta er víst ekkert svo óalgengt þegar fólk verður fyrir miklum áföllum.

Mér leið vel í endurhæfingunni og hafði alltaf fulla trú á að ég mundi ná mér og leit alls ekki á mig sem fatlaða. Ég mátti ekki keyra því sjónsviðið var svo skert og gat ekki farið ein í strætó því ég þurfti að læra að ganga aftur og jafnvægið var svo lélegt. Ég varð samt mjög móðguð þegar félagsráðgjafinn á Grensás sagði okkur mömmu að ég ætti rétt á ferðaþjónustu fatlaðra þar sem ég væri hreyfihömluð. En ég þurfti ekki að nýta mér ferðaþjónustuna þar sem ég fékk lækningu í kirkju nokkrum vikum eftir slysið, þar sem sjónsviðið opnaðist á einu kvöldi nægilega mikið til að ég mætti keyra bíl (þegar ég væri búin að ná mér betur), en mér hafði verið sagt að þetta væri mjög líklega varanlegur skaði þar sem enginn bati hafði orðið í byrjun.

Ég varð ekki minna hneyksluð þegar læknirinn minn stakk upp á að ég færi í Hringsjá, náms- og starfsþjálfun fatlaðra í staðinn fyrir FB! Ég skildi ekki hvernig henni datt í hug að segja þetta, ég áttaði mig ekki á að ég hefði slasast svona mikið, mér leið bara ágætlega.

Ég var inniliggjandi á Grensásdeild í fimm vikur en var svo dagssjúklingur fram í júní. Læknarnir voru svartsýnir að mínu mati og vildu hvorki gefa mér né foreldrum mínum miklar vonir um góðan bata, kannski af hræðslu við að fá það í hausinn ef það gengi ekki eftir. Ég var útskrifuð úr endurhæfingu á Grensásdeild hálfu ári eftir slysið og send heim til foreldra minna þar sem mamma var bundin yfir mér eins og smábarni.

 

Fyrsta árið eftir endurhæfingu

Lífið fór fyrst að vera erfitt þegar ég flutti aftur heim til foreldra minna og áttaði mig á að allt var breytt. Ég var hrædd við allt í allavega hálft til eitt ár eftir slysið, hvort sem það snérist um að fara ein í strætó eða í banka. Ég fór aftur í FB um haustið í eitt verklegt fag og eitt bóklegt þar sem læknirinn ráðlagði mér að byrja hægt. Ég hafði ekki úthald í að sitja út heila kennslustund. Ég gat með erfiðismunum lesið eina til tvær blaðsíður heima og var þá alveg búin og mundi ekkert sem ég hafði lesið.

Starfsfólkið í FB var yndislegt og vildi allt fyrir mig gera, en því miður var ekki mannskapur til að aðstoða mig sérstaklega. FB er eins og fleiri framhaldsskólar með sérdeild innan skólans en það var engan veginn fyrir mig. Eftir að hafa verið að rembast eins og rjúpan við staurinn í tvær annir sá ég að ekki var gert ráð fyrir fólki eins og mér. Ég var ekki með neina greindarskerðingu en réð samt ekki við að fara yfir efnið á sama hraða og áður þar sem ég var alltaf þreytt og átti erfitt með að halda einbeitingu og skammtímaminnið var mikið skert. Þarna um haustið grét ég í fyrsta skipti eftir slysið, því ég var hrædd og reið, reið yfir að læknirinn hefði haft rétt fyrir sér með skólann og alveg rosalega hrædd því mér fannst ég ekki ráða við neitt.

Ég réð ekki við skólann. ég gat ekki unnið lengur og ekki fylgt vinkonum mínum eftir í öllu sem þær voru að gera. Þær voru samt alveg einstaklega þolinmóðar og sýndu þarna hvað þær eru góðar vinkonur. Þær létu mig aldrei finna að ég væri breytt eða eitthvað öðruvísi.

 

Að standa á eigin fótum

Ég flutti svo að heiman ári síðar og byrjaði í Hringsjá um haustið. Það kom mér rosalega á óvart að þarna var ekkert fatlað fólk, eða ekki eins og ég hafði haldið að fatlað fólk liti út. Þarna var fólk á öllum aldri sem hafði dottið úr námi vegna veikinda t.d. og treysti sér ekki beint í menntaskóla. Hringsjá er þriggja anna nám en ég lauk tveimur önnum þar sem ég eignaðist barn á þriðju önn. Ég tók miklum framförum og leið vel í skólanum þar sem tekið var tillit til aðstæðna minna og skerðinga og ég tók námið á mínum hraða. Þrátt fyrir að mér liði vel í skólanum fékk ég alltaf hnút í magann þegar ég hitti jafnaldra mína sem spurðu í hvaða skóla ég væri. Mér fannst ekki auðvelt að segjast vera í skóla fyrir fatlaða, og hvað þá að útskýra af hverju ég var þar, því ég bar það ekki utan á mér. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að fordómarnir sem ég fann fyrir eftir slysið voru að miklu leyti eigin fordómar. Ég vildi ekki og ætlaði ekki að vera fötluð.

Þrátt fyrir góðan stuðning fjölskyldu og vina fannst mér ég vera ein í heiminum. Ég var öðruvísi en áður og öðruvísi en aðrir. Ég vissi í raun ekki að hvaða leiti, ég fann það bara. Ég gat ekki útskýrt hvað var að eða hvað ég átti erfitt með því það var í raun allt erfiðara. Ég hafði átt auðvelt með nám áður og var alltaf með fullan bókasafnspoka af skáldsögum heima sem ég las á kvöldin, en eftir slysið gat ég ekki lesið skólabækurnar og æfði mig að lesa heima í lestrarbókum fyrir smábörn. Ég þurfti að kynnast sjálfri mér alveg upp á nýtt.

Ég fann fyrir því og heyrði að aðrir dæmdu mig, sumir gáfu jafnvel í skyn að ég væri löt eða væri að notfæra mér slysið til að hanga og gera ekki neitt. Fólk tók því bara þannig að ég væri alveg búin að ná mér þar sem ekki var hægt að sjá að neitt væri að. Ef ég var spurð og ég sagði frá þreytunni og námserfiðleikum var eins og fólk vildi ekki heyra það og ég fékk meira að segja að heyra að ég gæti nú bara þakkað fyrir að vera á lífi.

Tveimur og hálfu ári eftir slysið flutti ég úr bænum, eignaðist barn og fór í feluleik- enginn mátti vita að eitthvað væri að mér. Ég trúði því í alvörunni að ef ég talaði ekki um þetta og færi að vinna og í fjarnám, héldi heimilinu fínu og brosti þá yrði ég eins og áður, kannski væru læknarnir að gera of mikið úr þessu.

Ég hélt út í u.þ.b. eitt ár. Ég ofgerði mér og átti enga orku eftir þegar ég flutti til Reykjavíkur aftur, ég gat ekki meira og fékk vægt taugaáfall. Ég gat ekki séð um dóttur mína ein áður en hún fékk leikskólapláss, þar sem hún var orðin orkumeiri en ég og ég þurfti að hvíla mig meira á daginn en hún, en mamma kom til bjargar og hjálpaði mér. Ég gat heldur ekki unnið eða verið í námi. Þetta var mjög erfiður tími fyrir mig andlega því mér fannst mér hafa mistekist. Ég fékk kvíðaköst þegar ég hugsaði um framtíðina og mér leið eins og aumingja. Í rúm fjögur ár hafði ég þurft að fara að sofa upp úr átta á kvöldin og leggja mig á daginn eins og ungabarn. Foreldrar mínir og vinir reyndu að skilja mig en gátu það auðvitað ekki, ég skildi mig ekki einu sinni sjálf! Og ég þoldi það ekki að ég gæti ekki menntað mig eða gert eitthvað af viti og fengið kannski smá aðstoð til þess. Ég fékk enga hvatningu frá fagfólki né var mér bent á leiðir til að auðvelda mér námið og halda áfram, ég var búin með Hringsjá og var bent á að fara á námskeið! Ég var ekki með greindarskerðingu og vildi mennta mig en það var bara enginn staður fyrir mig.

 

Reykjalundur

Stuttu eftir að ég flutti í bæinn aftur var mér boðið á innsæisnámskeiðið á Reykjalundi ásamt fimm stelpum á svipuðum aldri og ég, með heilaskaða. Við vorum á fyrirlestrum hjá taugasálfræðingi þrisvar í viku sem fræddi okkur um heilaskaða og allt sem honum getur fylgt. Hann sagði okkur að heilaskaði væri dulin fötlun og ég spurði hann þá hvort við værum fatlaðar og hann játti því. Ég skildi að þrjár í hópnum okkar væru fatlaðar því þær voru með hækjur eða göngugrind en ekki ég. Þetta var rosalega sárt og ég skildi þetta ekki.
Á einum fyrirlestrinum um framheilaskaða og persónuleikabreytingar sá ég að margt átti við mig og gekk á foreldra mína eftir fundinn og bað þau að segja mér hvort og hvernig ég væri breytt. Ég hafði ekki hugmynd um að ég hefði breyst svona mikið en það er vegna þess að framheilaskaða fylgir einnig skert innsæi í eigin mál, sem útskýrir að ég sá það ekki :)

Á Reykjalundi lærði ég að sætta mig við skaðann sem ég fékk, svo ég gæti tekist á við hann og leitað nýrra leiða til að lifa sem eðlilegustu lífi. Þar frétti ég líka af Modiodal, frá einni stelpunni í hópnum. Þegar ég byrjaði að taka Modiodal leið mér eins og ég væri að vakna eftir að hafa legið í dvala í fjögur og hálft ár. Lyfið heldur mér vakandi á daginn og athyglin og einbeitingin er miklu betri. Þangað til ég byrjaði að taka Modiodal var oft erfitt að fara út í búð- ég mundi ekki hvað ég ætlaði að kaupa, skrifaði miða og gleymdi honum heima eða gleymdi að ég væri með miða í vasanum.

 

Í dag

Nú verða sjö ár um áramótin frá slysinu og lífið orðið eðlilegt. Ég komst inn í Kennaraháskólann haustið 2007 og var tvö ár í þroskaþjálfafræði en skipti núna í haust yfir í guðfræði í Háskóla Íslands. Ég hef tekið námið aðeins hægar hingað til en er í fullu námi núna. Ég hef lagt mikið á mig til að geta lært aftur og er svo sannarlega að uppskera núna.

Ég finn mun frá ári til árs og meiri bata. Ég þarf kannski að gera hlutina hægar, fara aðrar leiðir en áður og prufa mig áfram. Það er bara rúmt ár síðan ég fór að geta lesið skáldsögur aftur eins og ég gerði, og einbeitt mér að skólabókunum, þannig að batinn er enn að koma :)
Ég er alveg hætt að hugsa um það hvernig ég var áður en ég slasaðist eða miða mig við það, enda komin mörg ár síðan og fólk þroskast og breytist. Í dag er ég mjög hamingjusöm, ég þekki betur inn á mig, hvað tekur frá mér orku og hvað gefur mér orku og hefur góð áhrif á mig.
Ég neyddist til að slaka á, skoða sjálfa mig og allt í mínu lífi og byrja upp á nýtt. Auðvitað komu tímabil þar sem ég syrgði það sem ég missti, kveið framtíðinni, skammaðist mín fyrir sjálfa mig og heilaskaðann og leið mjög illa, en ég lít öðruvísi á málið í dag. Það fá ekki allir tækifæri til að byrja upp á nýtt. Ég hugsa betur um sjálfa mig og er þakklátari fyrir litlu hlutina í lífinu og lífið sjálft. Slysið færði mig nær Guði sem er alltaf með mér og gefur mér allan þann styrk sem ég þarf. Ég er alltaf að prófa eitthvað nýtt og spennandi og síðustu ár hef ég verið í mikilli sjálfsrækt, ræktað sambandið við Guð, fjölskyldu og vini. Þegar ég rifja það upp þá sé ég að ég hef verið duglegri en mig minnti að fara á skemmtileg námskeið og hreyfa mig. Ég fór aðeins í ballett aftur til að æfa jafnvægið, jóga, magadans og er núna að sprikla í leikfimi hjá JSB :)
Ég fór á prjónanámskeið fyrir ári og eftir á að hyggja hefur það hjálpað mér mikið að slaka á og einbeita mér.
Ég veit ekkert hvernig lífið væri ef ég hefði ekki fengið heilaskaða, ég veit bara að allt er eins og það á að vera :)
Ég vona að sagan mín geti komið einhverjum að gagni og ætla að enda á kynna mig, mig í dag :)

Ég heiti Dís Gylfadóttir og er 26ára gömul. Ég á yndislega fjölskyldu, sambýlismann, dóttur og þrjú stjúpbörn. Ég er í guðfræði í Háskóla Íslands og gengur mjög vel. Ég á góðar vinkonur, mikið af áhugamálum og þakka Guði á hverjum degi fyrir lífið mitt, fjölskylduna og vinina sem hafa stutt mig og verið til staðar og hvatt mig áfram með jákvæðni og bjartsýni. Stuðningurinn sem ég hef fengið frá mínum nánustu er ómetanlegur og ég vil ekki hugsa þá hugsun til enda hvernig lífið væri í dag ef ég ætti þau ekki að.