Ráðstefna um ákominn heilaskaða föstudaginn 18. mars á Grand Hótel

Hugarfar stendur fyrir ráðstefnu um ákominn heilaskaða þann 18. mars næstkomandi á Grand Hótel frá kl. 9.00-11.45. Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar er snjóbrettakappinn Kevin Pearce, sem rekur í dag góðgerðasamtökin Love Your Brain. Húsið opnar kl. 8.30 og dagskrá hefst kl. 9.00.

Hér er um að ræða frábæran vettvang til að fræðast um stöðu fólks með ákominn heilaskaða, hvaða afleiðingar heilaáverkar geta haft í för með sér og hvað við getum gert betur hér á landi í endurhæfingu og fræðslu.

Það er mikil þörf á aukinni fræðslu um ákominn heilaskaða, bæði hjá stjórnmálafólki, fagfólki og almenningi. Heilaskaði hefur stundum verið nefndur „hinn þögli faraldur” þar sem afleiðingar hans sjást iðulega ekki utan á fólki. Mikill skortur er á upplýsingum og faglegri ráðgjöf fyrir fólk sem hlýtur ákominn heilaskaða og aðstandendur þeirra. Einstaklingar sem fá ekki viðeigandi meðferð, skilning og stuðning eru í aukinni hættu hvað varðar geðræn vandamál, ýmis konar áhættuhegðun og á að komast í kast við lögin.

Með ráðstefnunni viljum við vekja athygli á því að á Íslandi er skortur á úrræðum sem ættu að taka við eftir að bráðameðferð líkur á Reykjalundi eða Grensásdeild. Einnig viljum við sýna fram á mikilvægi þess að bjóða upp á úrræði sem hjálpa fólki að fóta sig í lífinu á ný.

 

Fyrirlesarar

Kevin Pearce er heimsfrægur fyrrum atvinnumaður á snjóbrettum og var á sínum tíma talinn helsti keppinautur Shaun White, frægasta snjóbrettakappa heims síðustu ár. Kevin stefndi á vetrarólympíuleikana árið 2010 en við æfingu í lok árs 2009 datt hann illa og hlaut við það heilaskaða, aðeins 22 ára gamall. Eftir slysið tók við langt og strangt endurhæfingarferli hjá Kevin sem segir að á hverjum degi minni líkami hans hann á slysið og afleiðingar þess. Hann hefur ekki getað stundað snjóbrettið eins og áður en hefur þess í stað einbeitt sér að því undanfarin ár að vinna að eigin bata og láta gott af sér leiða í gegnum samtökin sín Love Your Brain og hjálpa fólki að lifa með heilaskaða.

Dís Gylfadóttir er nýráðin verkefnastjóri hjá Hugarfari en sat fram að því í stjórn félagsins frá árinu 2009. Hún hlaut dreifðan heilaskaða eftir bílslys í lok árs 2002, þá 19 ára gömul. Dís hefur unnið hörðum höndum í gegnum árin að því að auka þekkingu á afleiðingum heilaskaða og bæta endurhæfingarúrræði hérlendis. Dís er guðfræðingur að mennt.

Smári Pálsson er sérfræðingur í klínískri taugasálfræði frá Háskólanum í Kaupmannahöfn og hefur starfað hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði frá 2012. Áður starfaði hann sem yfirsálfræðingur á tauga- og hæfingarsviði Reykjalundar og var þar teymisstjóri heilaskaðateymis. Þar áður starfaði hann sem taugasálfræðingur á Öldrunarsviði Landspítala háskólasjúkrahúss á Landakoti. Smári hefur verið í Fagráði um heilaskaða frá stofnun og nú sem varamaður tengiliðar við Hugarfar.

Guðrún Karlsdóttir er yfirlæknir tauga- og hæfingarteymis á Reykjalundi og hefur starfað þar í tæp 4 ár. Þar áður starfaði hún sem endurhæfingarlæknir í 10 ár á Grensásdeild.

Fundarstjóri er Hafrún Kristjánsdóttir, sálfræðingur og sviðsstjóri Íþróttafræðasviðs HR