Aðalfundar Hugarfars 18. janúar 2016

Á Aðalfundi Hugarfars 18. janúar 2016 voru Stefán John, Kristinn Magnússon og Þóranna Pálsdóttir kjörin í þrjú embætti stjórnar Hugarfars. Stefán var kosinn í embætti ritara/varaformanns, Þóranna kosin í embætti gjaldkera og Kristinn kosinn í embætti meðstjórnanda. Áfram sitja Guðrún Harpa í embætti formanns og Ólafía Mjöll í embætti meðstjórnanda. Viljum við óska þeim til hamingju með kjörið.
Viljum við þakka fyrrum stjórnarmönnum fyrir sitt framlag og störf hjá félaginu.

Klara Bragadóttir sem áður var í stjórn er nú tengiliður Fagráðs en ekki stjórnarmaður. Smári Pálsson taugasálfræðingur kemur inn sem varamaður hennar.

Dís Gylfadóttir hefur verið ráðin sem verkefnastjóri hjá Hugarfari. Starf hennar felst í því að sjá um innra starf Hugarfars. Dís Gylfadóttir fer því úr stjórn Hugarfars til að sinna því starfi. Þökkum við henni fyrir langa viðveru og flotta vinnu sem varamaður í stjórn Hugarfars.

Samþykktu fundarmenn Dís Gylfadóttur sem fundarstjóra.

Samþykktu fundarmenn bæði skýrslu stjórnar og ársreikning.

Samþykktu fundarmenn hækkun félagsgjalda í 5.000 kr. pr. ár.

Tillögur að lagabreytingu á  4.gr laga Hugarfars voru samþykktar að hluta með breytingartillögu um að fjöldi einstaklinga í stjórn séu að hámarki 5. Var sú breytingartillaga samþykkt. Hljóðar því 4.gr laga Hugarfars svo:

4. gr. Stjórn félagsins og verkaskipting

Stjórn félagsins skal skipuð að lágmarki 3 einstaklingum og að hámarki 5. Meðal stjórnarmanna skulu þrjú hlutverk skilgreind:

  1. formaður stjórnar
  2. varaformaður og ritari
  3. gjaldkeri

Aðrir stjórnarmenn gegna hlutverki meðstjórnenda ellegar hafa skilgreind hlutverk. 

Fagráð um heilaskaða skipar einn tengilið við stjórn og annan sem varamann.

Stjórnin er skipuð til tveggja ára í senn. Formaður og einn stjórnarmaður eru kosnir annað hvert ár en hitt árið er einn stjórnarmaður kosinn.

Stjórnin skiptir með sér verkum þannig:

Formaður er málsvari félagsins, boðar til stjórnarfunda og sinnir málefnum félagsins á milli funda.

Ritari/varaformaður ritar fundargerðir, bréf og varðveitir lög félagsins, auk formannsstarfa við forföll formanns.

Gjaldkeri sér um fjármál félagsins og heldur utan um félagatal.  

Tengiliður Fagráðs um heilaskaða tryggir samráð á milli stjórnar og Fagráðs um heilaskaða.

Reikningar skulu skoðaðir af löggiltum endurskoðanda.

Borin var fram tillaga um að stjórn Hugarfars hefði fjárheimildir til að gefa formanni Hugarfars leyfi á að þiggja laun fyrir ákveðin verkefni sem falla utan hefðbundinna stjórnarstarfa. Var sú tillaga samþykkt með fyrirvara um að ný stjórn Hugarfars móti regluramma utan um þá heimild.