Fræðslan byrjar í kvöld!

Sæl kæru vinir

Til hamingju þeir sem hafa skráð sig á fræðsluna um heilaskaða og heilaskaðaeinkenni.

Fyrsta fræðslukvöldið fer fram í kvöld frá 17:30 – 18:30 að Sigtúni 42 og hvetjum við fólk til að mæta tímanlega svo hægt sé að fara yfir skráningar og byrja á tilsettum tíma.

Við hvetjum þá sem ekki enn hafa greitt fyrir fræðsluna að leggja inn á reikning Hugarfars:

Rkn: 0135-26-070520
kt: 490307 0520

Verðið er sem áður 8.000 kr. fyrir félagsmenn sem GREITT hafa félagsgjöld en 16.000 kr fyrir aðra, en hægt er að skrá sig í félagið og greiða árgjaldið sem er 5.000 kr.

Við bendum á að posi verður einnig á staðnum.

Hlökkum til að sjá ykkur

Kv.
Hugarfar

Fræðsla um heilaskaða og heilaskaðaeinkenni

Umsjón:
Smári Pálsson sérfræðingur í klínískri taugasálfræði
Ólöf H Bjarnadóttir tauga- og endurhæfingarlæknir

Fræðslan er fjögur skipti, mánudagana 9. okt, 16. okt, 30. okt og 6 nóv kl 17:30-18:30, í húsakynnum Hugafars að Sigtúni 42.

Fræðslan miðast við að auka skilning fólks á heilanum og áhrifum heilaskaða á hann. Fjallað verður um mismunandi orsakir heilaskaða og algengustu einkenni heilaskaða eins og truflun á athygli, minni, skipulagi og ýmsum flóknari þáttum hugsunar sem heilinn stýrir. Einnig verður farið inn á innsæi, breytta hegðun og andlega líðan.

Fræðslan er ætluð einstaklingum með heilaskaða og aðstandendum þeirra, sem og öðrum sem vilja öðlast meiri skilning á þeim einkennum sem einstaklingar með heilaskaða eru að glíma við. Smári og Ólöf hafa margra ára reynslu við greiningu og meðferð heilaskaða.

Verð fyrir öll fjögur skiptin er 8.000 kr. fyrir félagsmeðlimi Hugafars, sem greitt hafa félagsgjöld,
en 16.000 kr. fyrir aðra. Að skrá sig í félagið kostar svo litlar 5.000 kr sem renna til félagsstarfssins og er möguleiki að skrá sig í félagið og kaupa námskeiðið á félagsmeðlimagjaldinu.

Athygli er vakin á því að hægt er að skrá sig í félagið og greiða félagsgjöld áður en greitt er fyrir fræðsluna. Félagsgjöld eru 5.000 kr. á ári. 
 

Hægt er að skrá sig í félagið með því að senda póst á hugarfar@hugarfar.is eða í skráningarforminu á fræðsluna hér að ofan.

Óskum eftir að fólk millifæri á neðangreindan reikning fyrir 9. okt:
Rkn: 0135-26-070520
kt: 490307 0520

Í mars-apríl er stefnt að framhaldsfræðsla þar sem nánar verður farið í ýmis einkenni eins og skyntruflanir, verki, þreytu ofl. og svo hvað sé mögulega hægt að gera til að draga úr áhrifum heilaskaða á einstaklinga.

 

Aðalfundargerð - Aðalfundi er frestað til September 2017 (Þurfum að finna gjaldkera til að taka við af Tótu á meðan)

Hér koma aðal punktarnir frá aðalfundi Hugarfars sem Stefán skrifaði hjá sér á fundinum:

Fundurinn er haldinn í húsakynnum ÖBÍ við Sigtún 42 þann 26. Apríl 2017 frá kl. 19 -21.

Dagskrá fundar var eftirfarandi:

1.       Kosning fundarstjóra

2.       Skýrsla stjórna

3.       Reikningar félagsins

4.       Lagabreytingar

5.       Kosningar í stjórn

6.       Félagsgjöld

7.       Önnur mál

Fylgiskjöl:
1. Skýrsla stjórnar
2. Ársreikningar 2016
3. Meðmælendabréf Dísar Gylfadóttur

 

 

1.       Kosning fundarstjóra
Smári Pálsson, tengiliður Fagráðs er kosinn einróma fundarstjóri kvöldsins



2.       Skýrsla stjórnar
 Guðrún Harpa, formaður Hugarfars les skýrslu stjórnar og flytur stutt ávarp um allt þ.að sem gerst hefur hjá félaginu á síðastliðnu ári.(sjá fylgiskjal 1)
Skýrsla stjórnar einróma samþykkt.

 

3.       Reikningar félagsins
Þóranna Pálsdóttir, gjaldkeri leggur fram reikninga félagsins (sjá fylgiskjal 2).
Nokkrar spurningar bárust gjaldkera um styrki, útgjöld og annað slíkt sem gjaldkeri svaraði. Ársreikningar einróma samþykktir.

 

4.       Lagabreytingar
Engar lagabreytingar eru gerðar.

 

5.       Kosningar í stjórn
Guðrún Harpa gefur áframhaldandi kost á sér til formanns og er það samþykkt með engum mótframboðum.
Stefán John segir sig úr stjórn til að einbeita sér að verkefnastjórastarfinu og innra starfi Hugarfars.
Þóranna Pálsdóttir gefur ekki kost á sér til að gegna áfram gjaldkerastöðunni, en starfar til næsta aðalfundar. Tíminn fram að því verður nýttur til að finna einhvern í hennar stað.
Þeir sem bjóða sig fram í stjórn eru:
Anna Dögg, Daníel Þór Sigurðsson, Hjörtur Pálmi Guðmundsson og Kristófer Auðunsson.
Fyrir fundinn hafði einnig Björgvin Fannar Björnsson gefið kost á sér en dró framboð sitt til baka á fundinum.
Kristófer, Hjörtur og Daníel voru kjörnir í stjórn en verkaskipting innan stjórnar verður svo ákveðin á næsta stjórnarfundi.

 

6.       Félagsgjöld
Einróma samþykkt að félagsgjöld haldist óbreytt, 5000 kr. á ári.

 

7.       Önnur mál
A) Verkefnastjórastaðan.
Dís Gylfadóttir hefur starfað sem verkefnastjóri Hugarfars frá janúar 2016 til febrúar 2017, síðan þá hefur Stefán John, fráfarandi ritari og varaformaður fyllt í skarðið.
Stefán hefur starfað náið með Dís sl. ár og var það álit Dísar að Stefán væri bestur til þess fallinn að gegna þessu starfi að svo stöddu. (sjá fylgiskjal 3)
Ný stjórn þarf að leggja fram tillögu launakjör og starfslýsingu fyrir þessa stöðu fyrir næsta aðalfund.

 


B) Umræður um laun formanns.
Ný stjórn þarf að leggja fram tillögu um launakjör og annað slíkt fyrir næsta aðalfund.



Fagráð býður fram aðstoð sína og samstarf við þessar áætlunargerðir .

 

 


Aðalfundi er frestað til September 2017

 

 

 

Fundarritari : Stefán John Stefánsson

Aðalfundur Hugarfars!! Ný stjórn o.fl.

Á Aðalfundi Hugarfars sem haldinn var 26. Apríl sl. var
Guðrún Harpa Heimisdóttir endurkjörin formaður félagsins
og 3 nýjir tóku sér sæti í stjórn þeir
Daníel Þór Sigurðsson, Kristófer Auðunsson og Hjörtur Pálmi Guðmundsson.


Stefán John sagði sig úr stöðu ritara og varaformanns en gegnir áfram stöðu verkefnastjóra tímabundið til reynslu.

Þóranna Pálsdóttir gefur ekki áfram kost á sér sem gjaldkera en gegnir því áfram þar til einhver kemur í hennar stað og leitum við til félagsmanna okkar til að aðstoða okkur við leit að einhverjum sem tilbúin/nn er að taka við af henni.

Jafnframt verður auka Aðalfundur haldinn í byrjun hausts (nánari uppl. síðar).

Við óskum nýrri stjórn innilega til hamingju og óskum þeim velfernaðar í komandi verkefnum

Aðalfundi Hugarfars þarf að fresta til 26.4

Ákveðið hefur verið í samráði við tengilið Fagráðs um að fresta aftur Aðalfundi Hugarfars sem átti að vera haldinn á morgun (5.apríl) til Miðvikudagsins 26. apríl kl. 19 vegna alvarlegra veikinda.

Við biðjumst velviðringar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda og vonum að fólk sýni þessum aðstæðum skilning.

Viðtalið í fréttunum við Kristófer og pabba hans um slysið

Viðtalið í heild sinni má sjá hér

 

14. október árið 2014 var örlagaríkur dagur fyrir feðgana Kristófer Auðunsson og Auðun Pálsson. Kristófer, sem þá var 17 ára og í blóma lífsins, lenti í mjög alvarlegu umferðarslysi á Gullinbrú í Grafarvogi er bifreið sem hann ók valt.

Eftir það gjörbreyttist líf Kristófers sem hlaut miklar heilablæðingar. Hann breytti um persónuleika og hefur þurft á mikilli endurhæfingu að halda. 

Auðun er mjög gagnrýnin á kerfið og vill að breytingar verði gerðar en engin langtímameðferð er í boði fyrir fólk sem fær heilaskaða. 

Kristófer slasaðist mjög alvarlega, hlaut líkamlega áverka og miklar heilablæðingar. Hann lá í nokkra daga á gjörgæsludeild og var síðan fluttur á barnadeild Landspítalans þar sem hann dvaldi í nokkrar vikur. Kristófer man ekki neitt eftir slysinu.

Höfuðáverkinn sem Kristófer hlaut í slysinu, ásamt öðrum áverkum, hafa hamlað lífi hans til muna.

Hann þurfti að hætta í skóla og vinnu. Hvorki Kristófer né foreldrar hans áttuðu sig almennilega á alvarleika og afleiðingum slyssins fyrr en þó nokkru eftir það.

Frá því slysið átti sér stað og til dagsins í dag hefur það tekið mikið á fjölskylduna.

Auðun segir að það vanti allt aðhald og leiðbeiningar fyrir fólk sem fær heilaskaða. Hann biðlar því til yfirvalda að gera eitthvað til að bæta þennan málaflokk.

Feðgarnir vilja þakka öllum þeim sem komu að málinu: Vegfarendum, sem hjálpuðu til við að velta bílnum, lögreglu, slökkviliði, starfsfólki á bráðamóttöku, sem veittu fyrstu hjálp, starfsfólki á Gensásdeild og á Reykjalundi. Án þessa fagfólks væri Kristófer ekki á þeim stað sem hann er í dag.

Hægt er að horfa á viðtal við feðgana í spilaranum hér að ofan.    

The crash reel! Mynd um heilaáverka sem Kevin Pierce hlaut við æfingar fyrir ólympíuleikana á snjóbretti

Crash Reel er áhrifamikil heimildarmynd sem fjallar um snjóbrettastjörnuna Kevin Pearce sem hlaut heilaskaða við iðkun íþróttar sinnar. Myndinni er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um afleiðingar heilaáverka og hefur hún verið sýnd víða um heim í þeim tilgangi.

Myndin er sýnd án endurgjalds í Leigunni í Vodafone Sjónvarpi.

Taugasálfræðingur á Grensás (Jónas G. Halldórsson) skrifaði doktorsverkefni um heilahristing og aðra heilaáverka!

Fimmtán staðreyndir um heilahristing og aðra heilaáverka byggðar á doktorsverkefni Jónasar G Halldórssonar:

  1. Um helmingur ungs fólks á fullorðinsaldri á Íslandi hefur hlotið heilahristing og/eða alvarlegri heilaáverka.
  2. Jafnvel vægur heilaáverki, svo sem heilahristingur, getur haft í för með sér afleiðingar til lengri tíma.
  3. Sjö af hverjum hundrað Íslendingum á aldrinum 15-35 ára segjast takast á við afleiðingar heilaáverka í daglegu lífi. Þessar afleiðingar geta háð þeim í samskiptum, námi, leik og starfi og haft áhrif á andlega og líkamlega heilsu.
  4. Heilaáverkar eru ein helsta orsök hömlunar, sjúkleika og dauða meðal barna, unglinga og ungs fólks á fullorðinsaldri í vestrænum heimi.
  5. Þyngd höfuðhöggs og fjöldi heilaáverka hafa mesta forspá um afleiðingar til lengri tíma.
  6. Ung börn eru í mestri áhættu að hljóta heilaáverka og fall er algengasta orsökin. Áverkar tengdir leik, íþróttum og umferð verða algengari með aldri.
  7. Börn eru viðkvæmari fyrir afleiðingum höfuðhöggs og heilaáverka en fullorðnir.
  8. Of mikið líkamlegt og andlegt álag eftir höfuðhögg, heilahristing eða aðra heilaáverka getur tafið fyrir bata og aukið líkur á þrálátum einkennum.
  9. Vægur heilaáverki, svo sem heilahristingur, skömmu eftir annan vægan heilaáverka getur haft í för með sér alvarlegar afleiðingar.
  10. Tíð væg höfuðhögg á stuttu tímabili geta valdið sjúklegum breytingum í heila, jafnvel þótt ekki komi fram einkenni heilahristings.
  11. Alvarleiki og afleiðingar heilaáverka á ungum aldri eru vanmetnar.
  12. Heilaáverkar eru ógn við hugræna heilsu ungs fólks.
  13. Forvarnir sem draga úr tíðni og alvarleika heilaáverka eru áhrifaríkasta íhlutunin, en sérhæfð endurhæfing og eftirfylgd þarf að vera í boði.
  14. Á ári hverju eru meira en eitt þúsund Íslendingar greindir með heilahristing eða alvarlegri heilaáverka. Að auki fá margir heilahristing, en leita sér ekki læknisaðstoðar.
  15. Á ári hverju hljóta 80-100 Íslendingar það alvarlega heilaáverka eða heilaskaða að ástæða væri til endurhæfingar og eftirfylgdar. Minni hluti þeirra hljóta slíka þjónustu og íhlutunin er oft ekki eins öflug og fjölbreytt og æskilegt væri og ekki til lengri tíma.

Verkefnið var 174 bls. af fróðleik um algengar aðstæður sem fólk hlýtur heilahristing/heilaáverka og hvernig hann þróast með tíma frá slysi.
 

Hægt er að nálgast allt doktorsverkefni Jónasar G Halldórssonar (Apríl 2013) hér: