Viðtalið í fréttunum við Kristófer og pabba hans um slysið

Viðtalið í heild sinni má sjá hér

 

14. október árið 2014 var örlagaríkur dagur fyrir feðgana Kristófer Auðunsson og Auðun Pálsson. Kristófer, sem þá var 17 ára og í blóma lífsins, lenti í mjög alvarlegu umferðarslysi á Gullinbrú í Grafarvogi er bifreið sem hann ók valt.

Eftir það gjörbreyttist líf Kristófers sem hlaut miklar heilablæðingar. Hann breytti um persónuleika og hefur þurft á mikilli endurhæfingu að halda. 

Auðun er mjög gagnrýnin á kerfið og vill að breytingar verði gerðar en engin langtímameðferð er í boði fyrir fólk sem fær heilaskaða. 

Kristófer slasaðist mjög alvarlega, hlaut líkamlega áverka og miklar heilablæðingar. Hann lá í nokkra daga á gjörgæsludeild og var síðan fluttur á barnadeild Landspítalans þar sem hann dvaldi í nokkrar vikur. Kristófer man ekki neitt eftir slysinu.

Höfuðáverkinn sem Kristófer hlaut í slysinu, ásamt öðrum áverkum, hafa hamlað lífi hans til muna.

Hann þurfti að hætta í skóla og vinnu. Hvorki Kristófer né foreldrar hans áttuðu sig almennilega á alvarleika og afleiðingum slyssins fyrr en þó nokkru eftir það.

Frá því slysið átti sér stað og til dagsins í dag hefur það tekið mikið á fjölskylduna.

Auðun segir að það vanti allt aðhald og leiðbeiningar fyrir fólk sem fær heilaskaða. Hann biðlar því til yfirvalda að gera eitthvað til að bæta þennan málaflokk.

Feðgarnir vilja þakka öllum þeim sem komu að málinu: Vegfarendum, sem hjálpuðu til við að velta bílnum, lögreglu, slökkviliði, starfsfólki á bráðamóttöku, sem veittu fyrstu hjálp, starfsfólki á Gensásdeild og á Reykjalundi. Án þessa fagfólks væri Kristófer ekki á þeim stað sem hann er í dag.

Hægt er að horfa á viðtal við feðgana í spilaranum hér að ofan.    

The crash reel! Mynd um heilaáverka sem Kevin Pierce hlaut við æfingar fyrir ólympíuleikana á snjóbretti

Crash Reel er áhrifamikil heimildarmynd sem fjallar um snjóbrettastjörnuna Kevin Pearce sem hlaut heilaskaða við iðkun íþróttar sinnar. Myndinni er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um afleiðingar heilaáverka og hefur hún verið sýnd víða um heim í þeim tilgangi.

Myndin er sýnd án endurgjalds í Leigunni í Vodafone Sjónvarpi.

Taugasálfræðingur á Grensás (Jónas G. Halldórsson) skrifaði doktorsverkefni um heilahristing og aðra heilaáverka!

Fimmtán staðreyndir um heilahristing og aðra heilaáverka byggðar á doktorsverkefni Jónasar G Halldórssonar:

  1. Um helmingur ungs fólks á fullorðinsaldri á Íslandi hefur hlotið heilahristing og/eða alvarlegri heilaáverka.
  2. Jafnvel vægur heilaáverki, svo sem heilahristingur, getur haft í för með sér afleiðingar til lengri tíma.
  3. Sjö af hverjum hundrað Íslendingum á aldrinum 15-35 ára segjast takast á við afleiðingar heilaáverka í daglegu lífi. Þessar afleiðingar geta háð þeim í samskiptum, námi, leik og starfi og haft áhrif á andlega og líkamlega heilsu.
  4. Heilaáverkar eru ein helsta orsök hömlunar, sjúkleika og dauða meðal barna, unglinga og ungs fólks á fullorðinsaldri í vestrænum heimi.
  5. Þyngd höfuðhöggs og fjöldi heilaáverka hafa mesta forspá um afleiðingar til lengri tíma.
  6. Ung börn eru í mestri áhættu að hljóta heilaáverka og fall er algengasta orsökin. Áverkar tengdir leik, íþróttum og umferð verða algengari með aldri.
  7. Börn eru viðkvæmari fyrir afleiðingum höfuðhöggs og heilaáverka en fullorðnir.
  8. Of mikið líkamlegt og andlegt álag eftir höfuðhögg, heilahristing eða aðra heilaáverka getur tafið fyrir bata og aukið líkur á þrálátum einkennum.
  9. Vægur heilaáverki, svo sem heilahristingur, skömmu eftir annan vægan heilaáverka getur haft í för með sér alvarlegar afleiðingar.
  10. Tíð væg höfuðhögg á stuttu tímabili geta valdið sjúklegum breytingum í heila, jafnvel þótt ekki komi fram einkenni heilahristings.
  11. Alvarleiki og afleiðingar heilaáverka á ungum aldri eru vanmetnar.
  12. Heilaáverkar eru ógn við hugræna heilsu ungs fólks.
  13. Forvarnir sem draga úr tíðni og alvarleika heilaáverka eru áhrifaríkasta íhlutunin, en sérhæfð endurhæfing og eftirfylgd þarf að vera í boði.
  14. Á ári hverju eru meira en eitt þúsund Íslendingar greindir með heilahristing eða alvarlegri heilaáverka. Að auki fá margir heilahristing, en leita sér ekki læknisaðstoðar.
  15. Á ári hverju hljóta 80-100 Íslendingar það alvarlega heilaáverka eða heilaskaða að ástæða væri til endurhæfingar og eftirfylgdar. Minni hluti þeirra hljóta slíka þjónustu og íhlutunin er oft ekki eins öflug og fjölbreytt og æskilegt væri og ekki til lengri tíma.

Verkefnið var 174 bls. af fróðleik um algengar aðstæður sem fólk hlýtur heilahristing/heilaáverka og hvernig hann þróast með tíma frá slysi.
 

Hægt er að nálgast allt doktorsverkefni Jónasar G Halldórssonar (Apríl 2013) hér:

Umfjöllun um heilaskaða eftir fréttir 1.2.2017!

Umfjöllun var um heilaskaða í umræðu eftir fréttirnar þann 1.2.2017 þar sem sérfræðingar sögðu skoðun sína ásamt því að Guðrún Harpa sagði frá því hvernig hún hlaut heilaskaða og stutt um framhaldið. Rætt var við Smára Pálsson taugasálfræðing, Guðrún Karlsdóttur frá Reykjalundi og Guðbjörgu Lúðvíksdóttur frá Grensási um hvernig staða endurhæfingar væri í dag.

Þá voru allir sérfræðingarnir sammála að eftir að búið er að bjarga lífinu, var lítið sem ekkert í boði uppá varanlega endurhæfingu fyrir fólkið til að lifa lífinu, hugsunin á bakvið t.d. Heilahúsið, sem önnur lönd hafa mörg starfandi fyrir þá sem lenda í heilaskaða er einmitt varanleg endurhæfing til að aðstoða fólk við að fóta sig og takast á við lífið þar sem fólk er statt í framhaldinu af því að hljóta heilaskaða.

Sjá má alla umfjöllunina hér:
http://www.visir.is/section/MEDIA99&fileid=SRCA4DFF50F-5B5B-41DD-994A-6B543759339A

"Move it to improve it", Mitii þjálfun - 7. nóv

Stefán Örn Pétursson sjúkraþjálfari kom og kynnti fyrir okkur Mitii þjálfunaraðferðina – Move it to improve it.

Mitii er tölvuforrit sem samræmir námsgetu og þjálfun þess hluta heilans sem er grunnur þess að einstaklingurinn geti aukið þekkingu sína og öðlast meiri færni. Mitii nýtir sveigjanleika heilans (neuroplasticity) til að auka færni einstaklinga með heilaskaða bæði varðandi hreyfigetu og vitræna færni.

Stofnunin Helene Elsass Center (HEC) í Kaupmannahöfn hannaði og þróaði Mitii forritið fyrir börn og einstaklinga með Cerebral Paresis (CP).

Reynslan af þjálfun með Mitii hefur þó leitt í ljós að hún gagnast fleirum og hefur verið notuð í þjálfun á einstaklingum með ákominn heilaskaða, eldri borgurum, gigtarsjúklingum, einstaklingum með einhverfu, ADHD og í almennri endurhæfingu.

 

 

Stefán er frumkvöðull í notkun Mitii á Íslandi og hefur kynnt aðferðina víða hérlendis.

Eftir frábæra kynningu óskum við þess að heilbrigðisstarfsfólk taki höndum saman og geri Mitii þjálfunina aðgengilega fleirum.

Nánar um Mitii: http://www.aflid.is/index.php?pid=1710

Viðtal sem Fréttatíminn tók við Daníel Þór Sigurðsson var að bætast við!

Daníel Þór Sigurðsson meðlimur Hugarfars slasaðist alvarlega þegar bíll keyrði yfir höfuð hans í æsku. Hann varð fyrst greindur með heilaskaðann þegar hann var orðinn fullorðinn og hafði lifað með heilaskaðann allt sitt líf frá 5 ára aldri. Ef heilaskaðinn hefði uppgötvast fyrr hefði hann fengið allt aðra meðhöndlun.

Lesa má greinina með því að smella á linkinn hér að neðan:

Daníel Þór Sigurðsson

Daníel Þór Sigurðsson

Félagsfundur 3. okt - Breytt hlutverk í fjölskyldum eftir slys/veikindi

Sr. Eysteinn Orri Gunnarsson sjúkrahúsprestur hélt erindi um breytingarnar sem verða óhjákvæmilega í fjölskyldum við slys eða veikindi. Þegar einstaklingur getur ekki sinnt hlutverkum sínum eins og áður snertir það alla í fjölskyldunni og hefur áhrif á samskipti innan fjölskyldunnar.

Frábært og þarft erindi sem minnir okkur á mikilvægi þess að tala saman og ræða hlutina við okkar nánustu – því fólk les ekki hugsanir, við verðum að tjá okkur.