Fagráð um heilaskaða og Hugarfar

Jónas G. Halldórsson er sérfræðingur í klínískri taugasálfræði á Grensásdeild Landspítalans og formaður Fagráðs um heilaskaða.


Birtist í Mbl. 18. mars 2015.


jonas.jpg

"Það skortir þjónustu fyrir fólk með heilaskaða eftir að bráðaþjónustu lýkur, með endurhæfingu, fræðslu og eftirfylgd til lengri tíma."

Heilaáverkar eru taldir ein helsta ástæða heilsufarsvanda hjá börnum, unglingum og ungu fólki á fullorðinsaldri á Vesturlöndum. Ísland er engin undantekning hvað snertir tíðni, algengi og afleiðingar heilaáverka meðal ungs fólks. Á ári hverju hljóta tugir Íslendinga staðfestan heilaskaða af völdum áverka og hundruð til viðbótar eru greind með vægari heilaáverka, svo sem heilahristing, og takast á við afleiðingar þeirra til skemmri eða lengri tíma. Rannsókn hefur gefið til kynna að um 7% Íslendinga á aldrinum 15-35 ára séu með afleiðingar heilaáverka, sem hafi áhrif á daglegt líf þeirra.

Heilaáverkar eru ekki eins sýnilegir og ýmsir aðrir áverkar og því er tilhneiging til að vanmeta eðli þeirra og afleiðingar og umfang sem heilbrigðisvandamáls. Þetta er ein ástæða þess að það skortir á þjónustu fyrir þennan hóp sjúklinga að lokinni útskrift af bráðadeildum, sérhæfða íhlutun, endurhæfingu, meðferð, fræðslu og eftirfylgd til lengri tíma. Heilaáverkar eru ógn við hugræna heilsu fólks á öllum aldri og heilaskaði hefur áhrif á flesta þætti, atferli, aðlögun, líðan, daglegt líf, nám og störf. Með sérhæfðri íhlutun, meðferð og eftirfylgd er hægt að draga úr áhrifum þessara afleiðinga og aðstoða einstaklinginn við að ná fótfestu á ný í lífinu. Í meira en áratug hefur hópur sérfræðinga á Grensásdeild, Reykjalundi og fleiri þjónustustofnunum unnið að því að vekja athygli á málefnum fólks með heilaskaða og fjölskyldna þeirra og þörf þeirra fyrir stuðning og þjónustu. Árið 2005 stofnaði þessi hópur Fagráð um heilaskaða. Fagráð um heilaskaða átti frumkvæði að stofnun Hugarfars, félags fólks með ákominn heilaskaða, aðstandenda og áhugafólks um málefnið, í febrúar 2007. Fulltrúi Fagráðs á sæti í stjórn Hugarfars. Hugarfar er m.a. aðili að Öryrkjabandalagi Íslands og Evrópusambandi fólks með heilaskaða og fjölskyldna þeirra (BIF).

Mörg krefjandi og spennandi verkefni bíða Hugarfars og Fagráðs um heilaskaða á komandi árum. Við hvetjum þá sem takast á við afleiðingar heilaáverka, aðstandendur þeirra og stuðningsfólk til að gerast félagar í Hugarfari og taka virkan þátt í því mikilvæga og gefandi starfi sem þar er unnið. Einnig bjóðum við sérfræðingum og öðrum fulltrúum þjónustustofnana til þátttöku í Fagráði um heilaskaða. Sem dæmi um baráttumál okkar má nefna stofnun endurhæfingarúrræðis fyrir einstaklinga með heilaskaða, þar sem þeir njóta félagsskapar og handleiðslu og taka þátt í starfi sem tekur mið af færni hvers og eins, eins og þekkt er í „HovedHuset“ í Danmörku. Annað baráttumál sem rætt hefur verið um er stofnun miðstöðvar þar sem fólk með heilaskaða getur hist og fengið fjölbreytta ráðgjöf, meðferð, þjálfun, fræðslu og eftirfylgd til lengri tíma.

Höfundur er sérfræðingur í klínískri taugasálfræði á Grensásdeild Landspítalans og formaður Fagráðs um heilaskaða.