Ég varð fyrir líkamsárás aðfaranótt 26. febrúar 2011 og fékk við það ákominn heilaskaða.  Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta leiðinlegt orð og erfitt að tala um heilaskaða. Það hljómar svo illa og ég vil ekki hafa hlotið ákominn heilaskaða. Ég er með fordóma fyrir þessu því maður er það sem maður hugsar og ég elska heilann minn. Hann er ég og ég vil hafa hann í toppstandi.

Þegar ég vaknaði á spítala þann 26. febrúar 2011 finnst mér eins og það fyrsta sem ég muni sé að læknar séu að segja við foreldra mína að það verði að koma í ljós hver skaðinn er þegar ég vakna. Það sé ekki vitað að svo stöddu en ég hafi gefið réttar upplýsingar þegar ég fannst, sem er jákvætt.

Þeir áverkar á höfði sem ég hlaut voru tvær sprungur á höfðukúpu, mar á framheila, það sprak í mér augnbotninn á öðru auga og blæddi inn á innra eyra öðru megin.

Ég var fjórar nætur á spítala. Ég man ekkert hvað gerðist en finnst ég muna ójóst eftir árás, veit ekki hvort það sé ímyndun en ég sagði við sjúkraflutningamenn sem fundu mig og lækna á bráðamóttöku að á mighefði verið ráðist, en þegar ég vakna upp aftur þá man ég ekkert.

Þegar ég vaknaði aftur gat ég sagt hvaða ár var, hver var forseti og svona einfaldar spurningar en ég átti erfitt með að fara sjálf á klósettið sökum svima og það leið auðveldlega yfir mig þegar ég ætlaði á fætur. Ég gerði mér ekki grein fyrir hve mikið ég var slösuð og áttaði mig engan veginn á aðstæðunum.

Það vildi svo heppilega til að ég bjó hjá foreldrum mínum þegar ég slasaðist og fór ég í sex mánaða leyfi frá vinnu og skóla eftir árásina. Ég svaf um tuttugu tíma á sólahring og vakti rétt til að fara á klósettið og borða. Ég man að mér fannst bara frekar þægilegt að sofa svona mikið. Það var allt svo erfitt, bara það að klæða sig í föt var mér nánast um megn og sá mamma um að klæða mig í sokka, því mér fannst óþægilegt að beygja mig niður. Þetta var skrítið en ég velti þessu ekki mikið fyrir mér. Sumar vinkonur mínar „öfunduðu“ mig af veikindafríinu því sumarið eftir árásina var veður mjög gott og fór ég mikið í sund þar sem ég svaf eins og steinn á sólbekk. Mér fannst það mjög fínt og leið ekkert svo illa meðan ég var ekki í samskiptum við lögreglu sem tókst alltaf að taka mig út af laginu og láta mér líða illa.

Ég fór í allsherjarmat á Grensás. Út úr matinu kom að ég var með minni yfir meðallagi en ég veit ekki hvernig það var áður, mér finnst samt mjög óþægilegt þegar ég gleymi hlutum og fæ ég sting í magann. Ég er með fína rökhugsun en  ég þreytist auðveldlega og viðbragðsflýti hugans kom ekki vel út. Ég byrjaði að mæta á Grensás og þjálfaði þar m.a. viðbragðsflýti í tölvuleikjum, en þreyttist fljótt við þau átök og kom fyrir að ég sofnaði í leikjunum. Ég byrjaði í 50% vinnu sex mánuðuðum eftir atburðinn og hætti í kjölfarið á Grensárs því ég hafði ekki orku í að vinna og mæta í viðbragðstíma. Ég ætlaði mér að taka upp þráðinn síðar.

Ég ákvað að setja mér markmið í veikindafríinu. Fór út að ganga, ekki langt, bara út götuna og til baka. Eftir u.þ.b. mánuð af göngu ákvað ég að prófa að skokka. Ég komst kannski 20-30 metra þegar ég lagðist niður af svima og gekk svo til baka.

Sumarið eftir árásina fór ég með vinkonu minni upp á Esjuna.  Innst inni vissi ég að þetta væri ekki góð hugmynd enda kom það í ljós. Mérleið hörmulega en vildi ekki gefast upp. Ég elti hana. Við erum gamlir æfingafélagar og ég vildi ekki að hún myndi stinga mig af. Mig svimaði hræðilega en þrjóskan bannaði mér að stoppa og snúa við þó að ég hugsaði ekki um annað. Ég komst upp að Steini og niður aftur. Daginn eftir var eins og ég væri komin á byrjunarreit. Ég megnaði ekki að klæða mig í sokka og var ég rúmar tvær vikur að jafna mig. Ég hafði verið að æfa frjálsar og prófaði ég að fara á nokkrar æfingar þar sem ég var algjört súkkulaði. Upphitunin var mér um megn. Ég hugsaði með mér að ég ætti aldrei eftir að geta hreyft mig almennilega aftur.  Hreyfing er mér mjög mikilvæg.

Ég byrjaði í byrjendahóp í Bootcamp tæpum tveimur árum eftir árásina. Ég fékk mikinn svima af æfingunum og vanlíðan eftir æfingar og daginn eftir, en ég gafst ekki upp. Ég hafði keypt þriggja mánaða kort og ætlaði ekki að gefast upp. Ef það myndi líða yfir mig þá myndi bara líða yfir mig. Þröskuldur vanlíðaninnarhækkaði rólega. Ég hafði verið í Bootcamp áður og var fólk hissa að ég væri í þessum grænjaxlahóp. Mér fannst ég finna fyrir pressu að færa mig yfir í betri hóp en ég var í mesta basli í þeim sem ég var í. Ég leit vel út og ég sagði fólki svo sem ekkert hvað amaði af mér fyrir utan nokkrum þjálfurum. Þegar þarna var komið við sögu var ég í 50% vinnu, vann fram að hádegi, fór þá heim og lagði mig og mætti svo á æfingu seinni partinn. Kom heim, borðaði og fór svo aftur að sofa.  Ég þarf að sofa mun meira en ég gerði og finnst mér það stundum frekar þreytandi að þurfa svona mikinn svefn. Ef ég sef ekki nóg í einhvern tíma þá er eins og ég fái flensueinkenni.

Þegar ég er þreytt þá er allt erfitt. Að keyra bíl getur verið yfirþyrmandi. Klæða sig í föt er þreytandi og að fá sér að borða og smyrja brauð er óþarflega erfitt. Stundum langar mann bara að sitja og þegja í þögn. Þegar ég er í margmenni þá á ég það til að detta út. Ef vinkonurnar koma saman í „brunch“ þá á ég erfitt með að fylgjast með og verð bara þreytt. Það er mikið áreiti í vinnunni og stundum langar mig að loka mig af inni í herbergi og leggjast niður, bara í 10 mínútur til að ná áttum, en það eru öll herbergi úr gleri þar sem ég vinn svo ég geri það ekki. Ég vinn í opnu rými og er ég komin með vinnuheyrnarhlífar.  Ég er ekki mikið að kvarta, heldur byrgi ég þetta inn í mér. Ég vil ekki að fólk vorkenni mér en á sama tíma er ég pirruð. Eitt af því sem pirrar mig er þegar vinkonur mínar sem eiga börn, jafnvel þrjú undir fimm ára aldri og  eru að kvarta undan þreytu.  Orsök þreytu þeirra er svo augljós.  Ég nenni yfirleitt ekki að hlusta á þreytutal en ég skil það. Þetta eru álagstímar í þeirra lífi. Ég er líklega bara bitur að vera manneskja á besta aldri sem á oft erfitt með að höndla daglegt líf. Ég er í 100% vinnu en  ég á engin börn, er bara að hugsa um sjálfa mig. Ég reyni að taka þátt í því sem er í boði því ef ég sit heima finnst mér ég hafa tapað, bæði fyrir höfuðáverkanum og fyrir þeim sem barði mig og gengur laus, þess vegna keyri ég mig stundum út og er oft úrvinda.

Það var partý í hóp sem ég er að æfa með á föstudegi fyrir stuttu síðan. Ég var svo þreytt þennan dag, óvenju þreytt.  Fannst það mjög leiðinlegt en ég ákvað að fara aðeins fyrr heim úr vinnunni til að leggja mig. Mætti svo með hópnum á æfingu kl. 18:00. Ég var gjörsamlega máttlaus á þessari æfingu. Eftir æfinguna fórum við í heitan pott og svo í partý.   Ég sat bara eins og vofa. Megnaði ekki að tala en reyndi samt að gera mitt besta, ég var svo þreytt og fann fyrir óþægindum sem ég rek til höfðuáverkans. Þetta er sérstök óþægileg líðan en ég  vildi samt ekki missa af gleðinni. Þegar svona gerist hugsa ég mér til huggunar að ég slapp samt svo vel, ég gæti verðið grænmeti eða jafnvel dáin. Ég er eftir allt heppin.

Ég á það oft til að fara fram úr sjálfri mér.  Það er líka mikill dagamunur á mér. Ég fór á æfingu í frjáslíþróttahöllinni um daginn. Ég ætlaði að taka létta hlaupaæfingu en ég tók 4x200m spretti með 1 1/2mín á milli, ætlaði að taka fimm slíka með sömu vinkonu og ég fór með á Esjuna. Ég gat ekki meira, mér fannst ég vera aumingi, fann fyrir svima og óþægindum. Hún tók fimm en þessir fjórir sátu í mér í nokkra daga. Var með óþægilegan höfðuverk. Ég vissi að ég myndi fá hann og hann hefði örugglega orðið meiri hefði ég pínt mig í þann fimmta. Þessi dagamunur veldur því að mér finnst égkunna  lítið á sjálfa mig. Suma daga er ég með háleit markmið um að bæta tíma mína í hinum og þessum hlaupum, en svo á ég það líka til að hlaupa á vegg nánast í bókstafslegri merkingu.  Ég var svo mikill orkubolti og mig langar að verða það aftur. Ég held að þröskuldurinn sé alltaf aðeins að hækka.  

Þegar ég slasaðist var ég að skrifa meistaraprófsritgerð í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands. Ég hafði tvisvar reynt að taka upp þráðinn að nýju en gefist upp. Ég var einnig í vinnu með. Svo tók ég mér tveggja mánaða frí frá vinnu frá febrúar fram í apríl árið 2014. Byrjaði á nýrri ritgerð samt tengdu efni og kláraði á rúmum tveimur mánuðum. Það kom mér á óvart hvað mér fannst lítið mál að skrifa hana. Held að það hafi verið af því að ég var ekki að gera neitt annað á meðan. Þetta var frekar einfallt líf, ekkert áreiti sem ég þoli svo illa. Það snerist bara allt um að skrifa þessa ritgerð og ég ætlaði að klára hana. Ég var svo ánægð þegar ég skilaði. Ári áður var ég búin að sætta mig við að klára þetta próf aldrei en svo tókst það. Þetta var mikill léttir og mikill sigur.

Það var svo þrem árum eftir árás (hálfu ári eftir skil) sem ég var alveg búin á því. Ég var fyrir smá áfalli sem varð til þess að allt hrundi. Ég hafði samband við Guðrúnu lækni sem ég hafði haft á Grensárs. Hún var komin yfir á Reykjalund og fékk ég viðtal þar við teymi. Þar var líka komin Claudia taugasálfræðingurinn sem ég var með á Grensárs. Ég komst inn á Reykjalund mánuði síðar og fór í endurhæfingu sem tók tvo mánuði og bjargaði mér alveg.  Ég var í þessari endurhæfingu fyrir nákvæmlega ári (nóvember-desember 2014). Til að endurspegla skilningsleysi sem er í samfélaginu um þessi mál þá tók ég efir að fólk var hissa að ég kæmist svona fljótt að á Reykjalundi. Sumum fannst skrítið að ég  þurfti bara að bíða í mánuð þar sem það eru svo langir biðlistar,  eins og það væri ekkert að hjá mér!  Maður verður sár þegar maður fær svona viðmót, en  ég fór að réttlæta sjálfa mig og útskýra að fagfólk mæti það svo að ég þyrfti að komst strax að þannig að það hlyti að vera eitthvað að hjá mér.

Mig langar að þakka því frábæra fólki sem vann með mig á Reykjalundi. Ég er því mjög þakklát.

Ég verð að koma því að, að  það sem hefur truflaði mig hvað mest í þessu öllu saman er framkoma lögreglu og fréttaflutningur af málinu.  Það truflar mig enn í dag og mun líklega gera alla ævi, þó ég hafi nokkrum sinnum ákveðið að láta það ekki trufla mig lengur. Þá kemur það alltaf til baka. Til að mynda sagði einn lögreglumaður við mig þegar ég var að gagnrýna þeirra störf að ef ég væri dóttir hans myndi hann taka mig afsíðis og skamma mig og þetta endurtók hann nokkrum sinnum. Þessi framkoma hefur haft gríðarlega neikvæð áhrif á mig og held ég að ég muni aldrei sætta mig við þessa framkomu lögreglu en mín upplifun var að það var komið fram við mig eins og vandræðaungling en ekki fórnarlamb.

Í dag bráðum fimm árum síðar kann ég ekki enn á sjálfa mig. Ég er samt komin langt, það er mikið áreiti í vinnunni og höndla ég það yfirleitt, en stundum finnst mér eins og höfuðið á mér sé að springa og mig langar mest að fara heim og leggjast niður. Ég á það til að reyna of mikið á mig á æfingum. Ég fatta það yfirleitt ekki fyrr en daginn eftir,  það er þegar ég hef tekið vel á því líður mér eins og ég sé þunn. Ég er með höfðuverk og finnst allt gerast hægt og aftur finn ég að það tekur óþarflega mikið á að klæða sig í föt. Ég hef hinsvegar ákveðið að reyna að láta þetta ekki hafa of mikil áhrif á mig, ég er samt stundum bitur og reið, og veit af því. Ég hugsa oft að ég gæti sigrað þetta með því að komast í besta form lífs míns sem er kannski barnaleg hugsun og kannski óraunhæft. Ég veit það ekki. Ég er komin mjög langt, ég gat varla hreyft mig til að byrja með en núna er ég í fullri vinnu,  fer á bootcamp æfingar þrisvar í viku,  fer á gönguskíði, í sjósund og hleyp. Mér finnst samt erfitt að hlaupa, ég gefst reglulega upp á því en ég hef t.d. synt nokkrum sinnum til Viðeyjar eftir höfuðáverkan og var það lítið mál.

Það hefur hjálpað mér að hitta stelpur í Hugarfari sem eru í svipuðum sporum. Við erum fimm sem hittumsti 2-4 sinnum í mánuði og við ræðum það sem aðrir skilja ekki, því þetta er svo dulið. Það hjálpar manni að finna fyrir skilningi og sameiginlegri upplifun en fá ekki „já ég er líka alveg ósofin“. Ég er nefnilega ekkert endilega ósofin, ég svef yfirleitt átta tíma en það virðist stundum ekki vera nóg.