Fagráð um heilaskaða.

Fagráð um heilaskaða er þverfaglegur hópur fagfólks sem lætur sig málefni heilaskaða varða. Fagráð velur sér formann og ritara til eins árs í senn, en hlutverk þeirra er að halda utan um starfsemi fagráðs. Fulltrúar fagráðs fylla út og undirrita þátttökuyfirlýsingu, þar koma fram upplýsingar um sérhæfingu, verksvið og það framlag til starfsins sem viðkomandi getur lagt af mörkum til málefnisins. Formaður og ritari fagráðs samþykkja félaga í fagráð. Í fagráðinu er engin fjárhagsleg umsýsla.


Hlutverk fagráðs

  • Að koma á framfæri upplýsingum um stöðu, efla virðingu og auka virkni og þátttöku fólks með heilaskaða.
  • Að efla skilning almennings á málefnum fólks með heilaskaða og aðstandenda.
  • Að vera stjórnvöldum til ráðgjafar í uppbyggingu og þróun á nauðsynlegri þjónustu fyrir fólk með heilaskaða og aðstandendur.
  • Að festa í sessi þverfaglegt samráð í málefnum fólks með heilaskaða.
  • Að stuðla að góðri og gagnvirkri samvinnu þjónustustofnana ríkis og sveitarfélaga.
  • Að efla fræðslu og hvetja til rannsókna.

Starfsemi og vinnulag fagráðs

  • Starfsemin er skipulögð að hausti og sett fram í skriflegri áætlun.
  • Lögð er áhersla á að fá í fagráð hóp fagfólks með fjölbreytta þekkingu er snýr að málefnum fólks með heilaskaða.
  • Lögð er áhersla að virkja sem flesta félaga í hópa- og þróunarstarfi.
  • Lögð er áhersla á verkefni sem miðla þekkingu fagfólks og reynslu.
  • Stefnt er að árlegu kynninarátaki, eins og málþingi, fræðslu eða annarri dagskrá sem efli og miðlar þekkingu á málefnum fólks með heilaskaða og aðstandenda.

Samvinna fagráðs og Hugarfars

  • Hugarfar er félag fólks með heilaskaða, aðstandenda þess og áhugafólks um málefnið.
  • Fagráðið velur tengilið við stjórn Hugarfars og annan til vara.
  • Fagráðið leggur áherslu á að ímynd Hugarfars endurspegli faglegt starf, virðingu og víðsýni.
  • Samráð Hugarfars og fagráðs er skilgreint í lögum Hugarfars, sbr. grein 2 og 4. Þar er meðal annars lögð áhersla á gagnvirkt samstarf, um málefni fólks með heilaskaða og samráð um umfangsmiklar ákvarðanir stjórnar félagsins.

Samþykkt á stofnfundi fagráðs 6.9.2006.

Endurskoðað 26.9.2008. MM, ÓHB.