Tilfinningaleg vandamál og breytingar á geðslagi eftir heilaskaða. IV

Heilaskaði getur ekki eingöngu haft áhrif á vitræna getu heldur einnig á andlega líðan, hegðun og stjórn á tilfinninga.

Kvíði og þunglyndi

Gleymska og einbeitingarerfiðleikar draga úr sjálfstrausti og auka á óöryggi. Það kemur kannski ekki á óvart að margir einstaklingar sem hafa hlotið heilaskaða finna fyrir depurð og kvíða. Vitræn skerðing og hugsanlega minnkuð líkamsgeta í kjölfar heilaskaða veldur margháttar andstreymi í lífinu sem gerir það að verkum að viðkomandi getur gengið í gegnum sorgarferli líkt og við ástvinamissi. Þessi missir hefur andlegar, líkamlegar og félagslegar hliðar. Heilaskaði getur valdið miklum breytingum á lífi fólks, eins og t.d. atvinnumissi og þar af leiðandi fjárhagsáhyggjum með tilheyrandi óöryggi varðandi framtíðina.

Það eru ýmis ráð til við kvíða og þunglyndi. Það hjálpar að ræða áhyggjurnar við aðstandanda eða fagfólk. Stundum eru lyf gagnleg, að sameina bæði lyf og ráðgjöf skilar yfirleitt bestum árangri. Afleiðingar heilaskaða geta gert það að verkum að nauðsynlegt er fyrir einstakling og fjölskyldu hans að gera ýmsar breytingar á lífi sínu og finna verkefni eða störf við hæfi, það getur falið í sér breytt hlutverk í fjölskyldunni og breytingar á möguleikum varðandi atvinnu.

Framheilaskaði og stýritruflanir

Heilaskaði og þá sérstaklega framheilaskaði getur valdið svokölluðum stýritruflunum. Framheilinn er mikilvægur hvað varðar undirbúning, skipulagningu og framkvæmd verkefna en einnig hvað varðar ákvarðanatöku, leiðir til að leysa vandamál og mat á hvenær við þurfum að stoppa eða hafa hömlur á ákveðinni hegðun og atferli. Framheilaskaði getur valdið því að viðkomandi geti orðið hvatvís og hömlulaus, sagt eða gert vanhugsaða hluti. Gróft orðbragð, stuttaraleg tilsvör og óviðeigandi athugasemdir eru dæmi um þetta. Einnig getur slíkur skaði valdið því að viðkomandi verður ósveigjanlegur og getur átt erfitt með að undirbúa eitthvað fyrirfram sem krefst skipulagningar.
Það sem flækir málið er að eitt einkenni stýritruflana er skerðing á innsæi í eigin vandamál. Þetta kemur oft skýrt fram þegar nánir aðstandendur er inntir álits á vandamálunum, því þeir lýsa fleiri vandamálum en sá sem orðið hefur fyrir heilaskaðanum.
Skort á innsæi má í flestum tilvikum rekja til heilaskaðans sjálfs á sama hátt og minnistap og einbeitingarerfiðleika. Afleiðingin er stundum sú að viðkomandi aðili er tregur til að taka þátt í endurhæfingu sem beinist að einhverju sem þeir finna ekki fyrir (að eigin mati) og telja því ekki vera vandamál.
Margir aðrir þættir í heilastarfi geta hinsvegar virkað ágætlega sem gerir það að verkum að í augum ókunnugra virðast þeir ekki eiga í neinum erfiðleikum. Tal þeirra getur verið eðlilegt, sem og reikningsgeta, lestur, skrift ofl. en hinsvegar ná kerfin oft ekki að spila nógu vel saman og því verður oft truflun á daglegu lífi.

Bæklingur 4 tafla 1.JPG
Bæklingur 4 tafla 2.JPG
Bæklingur 4 tafla 3.JPG
Bæklingur 4 tafla 4.JPG
Bæklingur 4 tafla 5.JPG

Breytt hegðun
Fólk með heilaskaða getur upplifað breytingar á hegðun, þar með talið sjálfstjórn, sjálfsupplifun og viðbrögð við félagslegum aðstæðum.

Hömluleysi og hvatvísi
Framheilaskaði getur valdið hömluleysi þannig að viðkomandi einstaklingur hegðar sér á óviðeigandi hátt. Sem dæmi um þetta má nefna að ganga of nærri ókunnugu fólki (vera of kumpánlegur), vera of opinskár og ekki nóg orðvar, tala um (viðkvæm) einkamál fyrir framan aðra, tala mikið og hátt.
Heilaskaðinn getur valdið því að viðkomandi er ekki meðvitaður um þessi vandamál sem þar af leiðandi er erfitt að fást við og breyta. Undir svona kringumstæðum er afar mikilvægt að aðrir komi með leiðbeiningar um hvað megi fara betur svo viðkomandi verði meðvitaður um þessa hegðun sína. Sumir heilaskaðaðir einstaklingar verða áhugalausir og framtakslausir, hafa ekki í drift eða hvatann til að gera hluti. Þeir aðhafast fátt og hafa misst áhugann á því sem þeir höfðu ánægju af áður fyrr. Best er í slíkum tilvikum að byrja smátt, taka fáa hluti fyrir í einu og smáauka virknina. Við það tekst oft að glæða áhuga og löngun til að aðhafast eitthvað. Það getur verið gagnlegt að skrifa lista yfir þá hluti sem þarf að gera og setja inn í dagbók eða dagatal í farsíma. Þannig er hægt að merkja og raða niður hvenær á að vinna ákveðið verk og hvað langan tíma það tekur. Þegar verkinu er lokið má merkja við það og með tímanum eykst fjöldi verkefnanna.

Pirringur og reiði
Tilhneiging til að vera pirraður og skapbráður er þekkt vandamál eftir heilaskaða. Hlutir sem fyrir áfallið hefðu ekki hafa valdið erfiðleikum valda nú pirringi og reiði.

Oft lýsir sér þetta þannig að viðkomandi hellir sér yfir aðra með skömmum en getur jafnvel farið svo að hann leggur hendur á aðra, hendir hlutum eða er ógnandi. Þessar skapsveiflur orsakast hugsanlega af pirringi vegna andlegra-, félagslegra-, og fjárhagslegra vandamála. Skapsveiflurnar geta líka átt rót sína að rekja beint til heilaskaðans, og þá einkum til framheilaskaða því að framheilinn er mikilvægur hvað varðar stjórn á skapinu.

Til þess að geta ráðið bót á slíkri vanstillingu og skapsveiflum er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir hvað vekur þessar tilfinningar. Hávaði, þreyta, verkir, aðgerðaleysi, lítill svefn og áfengisneysla geta allt verið orsakavaldar. Næsta skref er að taka á þessum orsakavöldum á uppbyggilegan hátt t.d. með því að forðast áfengi, reyna að passa upp á að fá næga hvíld og taka upp nýja iðju og áhugamál. Aðrar leiðir til að draga úr pirringi eru slökunar- og öndunaræfingar, stunda jóga og stundum lyfjameðferð.

Bæklingur 4 tafla 6.JPG
Bæklingur 4 tafla 7.JPG

Félagsleg samskipti
Trufluð samskipti geta verið af mörgum ástæðum t.d. hegðunarbreytingum og breyttri hugsun, erfiðleikum við að leysa vandamál, dómgreind, rökhugsun, athygli, minnistap og skortur á sjálfsupplifun. Málmöguleikar og tal getur einnig truflast við heilaskaða.

Bæklingur 4 tafla 8.JPG
Bæklingur 4 tafla 9.JPG

Sambönd
Einstaklingur með heilaskaða þarf stundum stuðning vegna líkamlegrar fötlunar, en félagsskapur og tilfinningalegur stuðningur er einnig oft nauðsynlegur. Ef viðkomandi þarf ummönnun þá eru það oft aðstandendur sem sinna slíku hér á landi. Aðstandendur hafa yfirleitt einnig aðrar skyldur sem þeir þurfa að sinna eins og starf fyrir utan heimili, heimilisstörf og barnauppeldi. Að vera aðstandandi og í senn umönnunaraðili getur verið yfirþyrmandi og að aðlagast þessum breytingum getur verið krefjandi.

Að taka þátt í viðeigandi félagslegri þjónustu getur minnkað streitu og einmanakennd. Erlendis eru víða stuðningshópar fyrir fólk með heilaskaða og miðstöð sem styður við sjálfstæða búsetu, þar sem fólk með svipaðan vanda getur hist.

Eftirfarandi ráðleggingar eru ætlaðar aðstandendum og öðrum sem koma að aðstoð við/ummönnun einstaklinga sem hlotið hafa heilaskaða:

  • Biðja um hjálp þegar þörf er. Aðstandendur reyna oft að gera allt sjálfir. Ef þú ætlast til of mikils af þér þá eykur það á streitu. Ekki hræðast að biðja um hjálp. Skoða möguleika á stuðning heim.
  • Setja mörk. Það er ákveðinn fjöldi klukkustunda í deginum og ákveðin verk sem hægt er að sinna á þeim tíma. Sumir hlutir geta beðið.
  • Skipuleggja eitthvað skemmtilegt daglega. Verðlaunaðu þig fyrir að veita umönnun.
  • Halda sambandi við vini og fjölskyldu til að ræða vanda eða skemmta sér saman.
  • Hugsa um sjálfan þig. Aðstandendur eru í áhættu fyrir streitueinkennum. Ef þú hefur áhyggjur af heilsu þinni ræddu málin við heimilislækninn. Upplýstu um stöðu þína.
  • Taka frá tíma fyrir þjálfun/líkamsrækt. Líkamsrækt eykur vellíðan, minnkar kvíða og þunglyndi, bætir og viðheldur vöðvastyrk og eykur sjálfstraust. Þessir þættir réttlæta þann tíma sem varið er í æfingar.
  • Læra slökun eins og öndunaræfingar, hugleiðslu eða vaxandi vöðvaslökun.
  • Taka þátt í stuðningshópum. Stuðningshópar eru staður til að deila vanda og áhyggjum. Fólk með svipaðar aðstæður skilur hvernig þér líður.
  • Viðhalda kímni. Hlátur minnkar streitu, en á því augnabliki er vandinn ekki hugsun þín.


    M.a. byggt á:  Understanding Brain Injury A Guide for the Family, Mayo Clinic, 2008
    Ólöf H Bjarnadóttir, tauga- og endurhæfingarlæknir,
    Smári Pálsson, sérfræðingur í klínískri taugasálfræði
    Október 2017