Vitundarvakningardagur um heilaskaða 18. mars

Hugarfar, félag fólks með ákominn heilaskaða, aðstandenda og áhugafólks um málefnið, mun standa fyrir vitundarvakningardegi um ákominn heilaskaða miðviku­daginn 18. mars 2015.

Þann sama dag munu amerísku heilaskaðasamtökin „Brain Injury Association of America“ verða með vitundarvakningardag.

Ákominn heilaskaði orsakast oftast af ytri áverka sem er tilkominn vegna ofbeldis, slysa og falla. Afleiðingarnar reynast oft dulin fötlun sem ekki sést utan á fólki en getur valdið því víðtækum vanda s.s. að flosna úr námi eða vinnu og missa í kjölfarið fótanna í lífinu. Hér á Íslandi verða árlega um 500 manns fyrir heilaskaða, af þeim þurfa um 50-80 á sérhæfðri endurhæfingu að halda ár hvert. Stór hluti þess hóps er ungt fólk.

Hugarfar hefur farið þess á leit við alla grunnskóla landsins að á vitundarvakningar­degi sýni þeir nemendum í unglingadeildum skólanna forvarnarmyndbandið Heilaskaði af völdum ofbeldis, sem Hugarfar, Reykjalundur og SÍBS stóðu að. Myndbandið er aðgengilegt á slóðinni https://vimeo.com/41433751 .

Í tilefni af vitundarvakningardegi um heilaskaða 18. mars mun Hugarfar verða með opið hús að Sigtúni 42, Reykjavík, frá klukkan 17-19.